141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[14:31]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að þessum viðhorfum var lýst í atkvæðagreiðslu um málið í júlí 2009 af hálfu formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og ég hygg að við þingmenn VG höfum öll verið sammála því og séum enn. Við höfum allan tímann áskilið okkur rétt hvað þetta varðar. Við höfum hins vegar mörg hver sagt að til þess að slíkt yrði yrðu að vera málefnalegar, efnislegar ástæður fyrir því að segja: Hingað og ekki lengra. Til dæmis ef við værum strand í einhverjum viðræðum um sjávarútvegsmál eða aðra kafla að því er varðar þá meginhagsmuni sem lýst er í samþykkt Alþingis frá 2009. Þannig hef ég litið á málið. Þangað erum við ekki komin. Varðandi sjávarútvegsmálin erum við ekki komin af stað, því miður.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að viðhorf margra var að það ætti að byrja að minnsta kosti með nokkra kafla samhliða, bæði þá sem menn kölluðu þunga og léttari. Það varð ekki niðurstaðan og ástæðuna þekkjum við. Hún stafar af því að rýnivinnan, samanburður á löggjöfinni, varð flóknari og tímafrekari í þessum málaflokkum, sérstaklega á sviði landbúnaðar þar sem löggjöfin er mjög ólík. Það tók einfaldlega lengri tíma og það er skaði. Þannig að við höfum áskilið okkur rétt hvað þetta snertir.

Ég hef síðan sagt ítrekað um samningsniðurstöðuna að ég lít svo á að ákvörðun um þetta mál sé í höndum íslensku þjóðarinnar og ég tel ákjósanlegt að hún hafi í höndunum samningsniðurstöðu. Það þýðir ekki að ég sé sáttur við hana eða segi: Já, þetta er svo frábær samningsniðurstaða að við eigum að ganga í Evrópusambandið. Það er ekki samasemmerki þar á milli og af hverju ætti það að vera? Vegna þess að ef það væri þannig þyrfti ekkert að spyrja þjóðina.