141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[14:33]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skildi hv. þingmann þannig að lagt væri mat á það hvort um væri að ræða ásættanlegar niðurstöður. Það er nákvæmlega það sem menn gáfu sér í upphafi og er það sem formaður Vinstri grænna talaði um, hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon. Á hinn bóginn er sagt: Málið á alltaf að enda með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég sé ekki alveg hvernig þetta getur farið saman, að menn geti lagt það mat á samningsniðurstöðuna að hún sé ásættanleg og þar af leiðandi sé hægt að klára samningana en um leið sagt að hún sé ekki ásættanleg. Það sem ég á við er þetta: Ef fram kemur að niðurstaðan og sá samningur sem er í boði, til dæmis hvað varðar sjávarútvegsmálin, sé bara eins og allir vita hvernig verður, óásættanlegur fyrir Ísland, er hugmyndin samt sem áður sú að halda áfram með samninginn? Þrátt fyrir að menn hafi einmitt lýst því yfir að þeir hafi rétt til að segja stopp og hingað og ekki lengra ef ekki næst ásættanleg niðurstaða. (Forseti hringir.) Hvernig fer þetta saman, virðulegi forseti, að hafa annars vegar þá skoðun að málið hljóti alltaf að enda í þjóðaratkvæðagreiðslu og um leið áskilja sér rétt til að hætta samningaviðræðum ef ekki næst nægilega góður samningur? (Forseti hringir.)