141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[14:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það vantaði reyndar svar við einni spurningu minni sem var hvort einhverjar varanlegar undanþágur hefðu náðst í þeim ellefu köflum sem búið er að loka.

Nú er það þannig að hv. þingmaður er sennilega sömu skoðunar og meiri hluti þjóðarinnar að Ísland eigi ekkert erindi í Evrópusambandið. Hvers vegna í ósköpunum erum við þá að standa í öllum þessum kostnaði? Hvers vegna stöndum við í þessum kostnaði þegar loka þarf deildum á sjúkrahúsum, þegar vandræði eru með að borga fólki almennileg laun í heilbrigðisþjónustunni? Hvers vegna erum við að setja hundruð milljóna eða milljarða í aðildarumsóknina á þessum tíma?

Varðandi Kína hef ég bent á hvað Kína sjálft metur, og ég held að utanríkisþjónusta Kína, sem er eflaust ekki illa mönnuð, hafi komist að því að Ísland muni aldrei ganga í Evrópusambandið. Hvers vegna erum við þá að þessu brölti?