141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[14:41]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvers vegna erum við þá að þessu brölti ef ekki væri fyrir Kínverja? Það var það sem fólst í orðum hv. þingmanns. (Gripið fram í.) Kínverjar hafa komist að raun um að við séum ekki á leið í Evrópusambandið og af hverju skyldum við þá vera að þessu brölti úr því að Kínverjar hafa komist að þeirri niðurstöðu? (PHB: Eins og fleiri.)

Frú forseti. Ég segi nú bara að mér finnst dálítið langsótt að setja málin upp svona. Kínverjar hafa áreiðanlega fína utanríkisþjónustu og kannski leyniþjónustu líka, hver veit, og hafa kannski komist að einhverri niðurstöðu um þetta en þeir munu ekki ráða því hvað við gerum í þessu efni.

Ég er þeirrar skoðunar að aðild að Evrópusambandinu sé álitaefni sem hefur verið uppi í íslenskum stjórnmálum um langt skeið og ég vil að þjóðin taki af skarið í því. Ég treysti henni til þess og vil að hún geri það og ég vil að hún geri það á grundvelli aðildarsamnings. Það er mín persónulega sannfæring og skoðun. Þess vegna (Forseti hringir.) vil ég koma málinu í þann farveg og hef staðið að því og lagt mig fram um að vanda til verka í því efni.