141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[14:42]
Horfa

Jón Bjarnason (U):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu hæstv. utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, sem hann hefur skrifað og sett á blað fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands og flutt Alþingi. Þegar við fjöllum um þessa skýrslu held ég að mjög mikilvægt sé að skoða hvaða stjórnsýslulegu stöðu hún hefur. Þótt hæstv. ráðherra sé þekktur fyrir að búa mál sitt í gamansaman og léttan tón, sem er bara vel, þá er Evrópusambandsumsóknin engu að síður stærsta mál sem Ísland hefur tekist á við á seinni árum, eins og hæstv. ráðherra rekur í skýrslunni. Þá getur verið nauðsynlegt hvað það alvarlega mál snertir, eins og ég vík hér að á eftir, að nota orðalag sem sumum getur fundist léttúðugt en er í sjálfu sér mjög pólitískt.

Vegna umræðunnar sem hefur verið um það hvernig Evrópusambandsumsóknin varð til eða var afgreidd af hálfu þingsins þá er mjög mikilvægt að menn muni að Evrópusambandsumsókn var ekki kosningamál fyrir kosningarnar til Alþingis árið 2009. Þá voru efnahagsástæðurnar, hrun bankanna og hættuleg og erfið staða þar aðalmálið til að takast á við, en ekki Evrópusambandsumsókn.

Mig minnir að bara einn flokkur hafi haft hana á stefnuskrá, Samfylkingin, og gerir það enn. Hún er svona eins og eins máls flokkur í eyðimörkinni hvað þetta varðar, nema þegar hún getur leitt aðra til fylgilags við sig. Evrópusambandsumsókn var ekki kosningamál og ég veit að minn flokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, sem ég bauð mig fram fyrir og hafði gert í meira en áratug, hafði einmitt lýst því yfir að hann stæði ekki að Evrópusambandsumsókn. Ég fylgdi stefnu míns flokks í þeim efnum eins og ég hafði einnig kynnt hana fyrir kjósendum á öllum undanförnum árum.

Við skulum minnast þess líka að Vinstri hreyfingin – grænt framboð var á sínum tíma stofnuð til þess að berjast gegn umsókn og aðild að Evrópusambandinu. Þar greindi á milli Samfylkingar og Vinstri grænna í upphafi þegar þessir tveir flokkar voru stofnaðir.

Mjög mikilvægt er að menn átti sig á því að þjóðin var ekkert spurð þegar Alþingi samþykkti umsókn með naumum meiri hluta og einstaka þingmenn voru með alls konar útúrsnúninga á hvaða forsendum þeir væru að styðja umsókn. Eins og allir vita þá var ég andvígur þessu og ég taldi þá að minnsta kosti að spyrja ætti þjóðina fyrst hvort hún vildi gerast aðili að Evrópusambandinu, áður en farið væri út í þessa vegferð.

Það er tvískinnungur að halda að hægt sé að gera samning og bera hann undir þjóðina af ríkisstjórn og ráðherrum sem eru með skiptar skoðanir í málinu í grundvallaratriðum. Að mínu viti gengur það stjórnsýslulega alls ekki upp, því Evrópusambandið mun aldrei ljúka samningum í sjálfu sér. Það er Evrópusambandið sem hefur allt í hendi sér, stýrir vegferð og minnir okkur á að það var Ísland sem sótti um aðild að Evrópusambandinu en ekki Evrópusambandið sem sótti um aðild að Íslandi. Því stýra þeir þessari vegferð og hafa lagt áherslu á að þetta eru ekki samningar, þetta snýst um ferli. Það sem menn kalla samningaferli snýst um hversu hratt, vel, örugglega og trúverðuglega við getum innleitt lög og reglur Evrópusambandsins. Samningum lýkur ekki í einstökum köflum fyrr en Evrópusambandið er þess fullvisst að við verðum búin að innleiða lög og reglur Evrópusambandsins og uppfylla kröfur þess á aðildardegi. Því hefur hvað eftir annað verið lýst yfir.

Þess vegna fer enginn samningur fyrir þjóðina til atkvæðagreiðslu sem ríkisstjórnin stendur ekki öll á bak við. Ég held að mjög mikilvægt sé að menn hætti öðrum leikaraskap, því að þó svo að einstakir ráðherrar vildu hafa þessa skoðun þá samþykkir Evrópusambandið ekki slíkt. Það hefur hvað eftir annað lagt áherslu á að í þessari umsókn ræður það ferðinni, við verðum að uppfylla kröfuna, og lagt áherslu á að við uppfyllum svokölluð Kaupmannahafnarviðmið í því. Annað séu eingöngu tímabundnir samningar og undanþágur.

Einmitt er mjög mikilvægt að forsvarsmenn Evrópusambandsins hafa aldrei sagt að Ísland ætti möguleika á varanlegum undanþágum í neinu. Sérlausnir sem væru til einhvers tiltekins tíma gætu verið og eru í boði, en þær eru háðar því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Evrópuþingið geta með einföldum meiri hluta afnumið þessar sérlausnir ef út í það er farið. Þær standa ekki betur en svo og það er þessi alvarleiki sem við þurfum að gera okkur grein fyrir. Þegar við sækjum um aðild að Evrópusambandinu þá erum við að sækja um til að komast inn en ekki til þess að kíkja í pakkann.

Nú þykjast menn hafa gert hlé á þessu aðildarferli. Ég lagði fram og stóð að tillögu í hv. utanríkismálanefnd um að gert yrði hlé á viðræðunum og borið undir þjóðina hvort hún vildi sækja um aðild eða ekki. Meiri hluti utanríkismálanefndar, meðan ég átti sæti þar, var þeirrar skoðunar. Við stóðum að tillögu í nefndinni en þá þorðu ríkisstjórnarflokkarnir ekki að láta slíkt mál koma inn í þing og fannst betra að víkja mér úr utanríkismálanefnd. Það var nú allur kjarkurinn, en þingið á þennan rétt og á að mínu viti að fá að fjalla um málið. Þar með var ekki sagt að búið væri að samþykkja það sem slíkt, en að koma í veg fyrir að málið færi frá nefndinni inn í þingið með slíkum bellibrögðum og bolabrögðum var náttúrlega afar ólýðræðislegt og var kannski spegill fyrir þann ótta og hræðslu sem menn hafa í þessu máli og hvernig það er rekið.

Frú forseti. Það eru ákveðin atriði í þessari skýrslu sem ég hefði viljað koma beint að. Ég vil víkja að landbúnaðarkaflanum og þeim viðræðum sem þar eru í gangi. Þar er sagt að einhver heimabundin tregða hafi verið á framkvæmd í umsóknarferlinu í landbúnaðinum og þá vísað væntanlega til mín sem ráðherra. Ég vil mótmæla því alveg. Þrátt fyrir að ég væri andvígur umsókninni og því hvernig að henni var staðið, þá vann ég sem ráðherra og starfslið ráðuneytisins af fullum heilindum að því máli, varðandi upplýsingaöflun, gerð rýniskýrslu og annað þvíumlíkt.

Þegar það svar kom svo frá Evrópusambandinu um að þess sé krafist að Ísland hefji aðlögun á íslenskum landbúnaði að kerfi og lögum og reglum Evrópusambandsins innan þess aðildarferlistíma sem var í gangi og að ráðherrann yrði að leggja fram tímasetta áætlun um aðlögun þannig að bæði lög og regluverk væri tilbúið stofnanakerfið væri tilbúið á aðildardegi, þá sagði ég stopp. Ég sagði: Bíddu við, það fólst ekki í umsókninni af minni hálfu, ekki heldur af Alþingis hálfu eða greinargerð Alþingis, að við ættum að hefja beina aðlögun. Það fólst ekki í þessari umsókn og því sendi ég svar út og sagði: Það verður ekki hafin nein aðlögun að Evrópusambandinu varðandi landbúnað og stofnanir þess. Við treystum okkar kerfi hins vegar til þess að gera það innan ekki svo langs tíma ef aðildarumsóknin verður samþykkt.

Þetta féllst Evrópusambandið ekki á og setti á opnunarskilmála, ekki aðeins á landbúnaðinn heldur líka á kaflann sem laut að dreifbýlismálum sem heyrði ekki undir mig sem ráðherra, (Forseti hringir.) en það voru líka settir opnunarskilmálar á sömu atriði. (Forseti hringir.) Frú forseti, ég lagði áherslu á að fylgja samþykktum Alþingis (Forseti hringir.) en jafnframt líka að standa (Forseti hringir.) vörð um hagsmuni (Forseti hringir.) Íslendinga og ekki leggjast flatur fyrir ESB (Forseti hringir.) eins og sumir vildu gera í þessu máli.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmann um að virða tímamörkin.)