141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[14:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Nú er það svo að hv. þingmaður sat í ríkisstjórn fyrir hönd Vinstri grænna og var eitt sinn í þeim þingflokki, eins og hann fór vel yfir. Það er einnig svo að fyrir síðustu alþingiskosningar sagði formaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon, að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu. Eftir kosningar var strax farið í að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Einnig var sagt að ekki ætti að ráðast í aðlögun á íslensku regluverki. Hv. þingmanni var hent út úr ráðuneytinu vegna þess að hann vildi ekki ráðast í aðlögun. Hæstv. atvinnuvegaráðherra, formaður Vinstri grænna, tók við ráðuneytinu og réðst einmitt í þá aðlögun sem hv. þingmaður fór svo vel yfir.

Síðan er gert hlé á viðræðum. Hv. þingmanni er hent út úr utanríkismálanefnd vegna þess að gera átti raunverulegt hlé á viðræðum. Allur þessi farsi fram og til baka, eftirgjöf hægri, vinstri. Er hægt að treysta því að Vinstri grænir, jafnvel þótt fram komi einhver ályktun á þeirra flokksþingi (Forseti hringir.) núna í aðdraganda kosninga, muni standa í lappirnar í þessu máli í ljósi sögunnar?