141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:02]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil minnast þess að Evrópusambandið gat þess sérstaklega í árlegri skýrslu sinni til þingsins um samningaviðræðurnar við Íslendinga að það fagnaði ráðherraskiptunum sem urðu um áramótin og vonaðist til að samningaviðræður og aðildarferlið gæti núna gengið sem best fyrir sig, þannig að þeir höfðu greinilega afstöðu í málinu.

Það er alveg hárrétt að ég setti fram skilyrði og þau voru einmitt skilyrði Bændasamtakanna. Ég kynnti þau og lagði fram í ríkisstjórn sem grunnsamningsafstöðu og grunnsamningskröfu af hálfu Íslendinga. Við það voru ekki gerðar athugasemdir þar og í framhaldi af því var Bændasamtökunum sent það bréf.

Síðan þekkjum við það að í allt sumar hefur verið tekist á um dýraheilbrigðiskaflann, um það að textinn sem kom frá samninganefndinni — og við verðum að athuga það að vinnan er á ábyrgð ráðherra, (Forseti hringir.) fagráðherra — þar var einmitt tekist á um grundvallaratriði eins og innflutning á hráu kjöti, lifandi dýrum o.s.frv.