141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Það eru alltaf fjörsprettir í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar og voru það líka þegar hann var í ríkisstjórninni. Ég verð samt að segja það algjörlega skýrt hér um þær varnarlínur sem Bændasamtökin hafa sett fram, tekið hefur verið undir það allt í þeirri vinnu sem hefur verið gerð utan eitt, afnám tollverndar. Það eru farnar aðrar leiðir í því, en þar er verið að fara algjörlega eftir því sem segir í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Þar er það þrítekið að ein af afleiðingum inngöngu sé afnám tollverndar.

Hitt er svo því miður rangt hjá hv. þingmanni að honum hafi borist bréf frá Evrópusambandinu um að það þyrfti tímasetta áætlun um aðlögun. Svo var ekki. Eitt af því sem við náðum fram, meiri háttar sigur í þessum viðræðum, er að það verður ekki um neina aðlögun að ræða, það þarf ekki að breyta reglum, lögum eða stofnunum fyrir aðild.