141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram í máli ræðumanna fyrr í dag, m.a. hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, að það sé skoðun hans að sjávarútvegskaflinn verði ekki opnaður og sjávarútvegurinn ekki ræddur fyrr en makríldeilan hefur verið leyst. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála því.

Með fullri virðingu hefur sennilega engum öðrum hv. þingmanni eða hæstv. þáverandi ráðherra verið legið það meira á hálsi að hafa tafið fyrir og flækst fyrir í þessum aðildarviðræðum en einmitt hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Nú er það þannig ef mig misminnir ekki að hv. þingmaður hefur verið utan ríkisstjórnar í rúmt ár og enn bólar ekkert á samningskaflanum um sjávarútveginn. Getur hv. þingmaður (Forseti hringir.) greint frá því hvað það var sem hann á að hafa tafið svo mikið og hverjar hann telur skýringarnar á því að kaflinn (Forseti hringir.) sé ekki enn þá kominn fram?