141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við skulum spyrja um afstöðu þjóðarinnar í allsherjaratkvæðagreiðslu um endanlegan samning og fá einfaldlega upp úr kössunum hvort hann hefur hlotið samþykki eða ekki. Ég ber engan kvíðboga fyrir því. Íslendingar eru upp til hópa skynsamt fólk sem metur hagsmuni og það verður deginum ljósara í hverju hagsmunir manna felast þegar málið liggur þannig á borðinu. Hvað varðar það sem gerist hér eftir kosningar þá er nú einfalt að fjalla um það því að enginn ábyrgur stjórnmálaflokkur, við þær aðstæður sem Ísland er í í dag, mun hætta viðræðum við Evrópusambandið að loknum kosningum.

Hvað varðar stefnu Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar þá hefur mér yfirleitt þótt fara best á því að flokkar lýsi sjálfir sinni stefnu en geri kannski minna af því að lýsa stefnu annarra. Það er rétt að bæði Björt framtíð og Samfylkingin eru hlynnt því að ljúka viðræðum við Evrópusambandið. Ég held að við í Samfylkingunni séum kannski ívið meira en það. Við teljum að við getum náð niðurstöðu í þær viðræður sem sé svo ákjósanleg fyrir Ísland að hún muni hljóta samþykki meiri hluta þjóðarinnar og er full ástæða til að nota þetta tækifæri og þakka hæstv. utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, fyrir að hafa haldið á því verkefni jafn vel og hann hefur gert allt þetta kjörtímabil.