141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:29]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað að þjóðaratkvæðagreiðsla hefði farið fram um það hvort sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Þá hefði legið ljóst fyrir hvort þjóðin væri tilbúin til að vera í þessum aðildarviðræðum. Raunin er sú að skoðanakannanir sýna að meiri hluti þjóðarinnar vill ekki vera í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og er mótfallinn aðild en það var einmitt flokkur hv. þingmanns sem lagðist alfarið gegn því að þjóðin yrði spurð að því hvort hún vildi sækja um aðild að Evrópusambandinu á sínum tíma.

Ég á dálítið erfitt með að skilja hv. þingmann. Mér leikur forvitni á því að vita hvort hv. þingmaður meti það svo að einhver munur sé á þessum tveimur stjórnmálaflokkum, Samfylkingunni og Bjartri framtíð. Hv. þingmaður hlýtur að geta lýst skoðun sinni á því, hlýtur að geta lýst því hvort hann telji að einhver munur sé á þessum tveimur flokkum að öðru leyti. Hv. þingmaður segir að Samfylkingin sé líklega ívið meiri ESB-flokkur en Björt framtíð. Þá erum við að fá það staðfest hér að stóri bróðir, Samfylkingin, er ívið meiri ESB-flokkur enda er hún stærri í dag, enn þá, en litli bróðir, Björt framtíð, og það ýtir undir það sem menn hafa verið að tala um að Björt framtíð sé systurflokkur Samfylkingarinnar, eða dótturflokkur, ekki síst boðinn fram í þeim tilgangi að ná auknu fylgi. Sumir hafa talað um að þetta sé undirskálaframboð, að fylgið sem Samfylkingin er að tapa frá sér fari yfir til Bjartrar framtíðar og síðan verði undirskálin tekin eftir kosningar og því verði hellt aftur í kaffibollann og þá verði aftur til Samfylking. En miðað við skoðanakannanir held ég að menn hafi kannski ekki reiknað með því sem gæti verið að gerast, þ.e. að undirskálin væri að verða stærri en bollinn.