141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað er full ástæða til þess að fara að vilja þjóðarinnar þegar sá vilji liggur fyrir. Það eigum við alltaf að gera, þess vegna hvet ég til að mynda hv. þingmann til að fara að framkomnum vilja þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu hinn 20. október sl. um að gera ýmsar efnislegar breytingar á stjórnarskrá Íslands en fara ekki hér með málþófi gegn þeirri niðurstöðu í löglega haldinni þjóðaratkvæðagreiðslu og koma síðan með svona tvískinnungi, vil ég leyfa mér að segja, og halda því fram að hún vilji almennt fara að vilja þjóðarinnar og vísa til þess að það eigi að fara eftir einstökum skoðanakönnunum, þá væntanlega frá einni viku til annarrar, eða hvernig á að skilja þetta? (Gripið fram í.)

Ég geri enga athugasemd við það að hætta þessum viðræðum ef hér færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem niðurstaðan yrði sú að þjóðin ákvæði það í allsherjaratkvæðagreiðslu. Þá mundu menn auðvitað hætta þessum viðræðum. Ég tel hins vegar fremur skynsamlega afstöðu hjá til að mynda breska forsætisráðherranum, svo við tökum mann af þeim kanti stjórnmálanna og flokk sem hv. þingmaður hefur oft talið sig eiga ýmislegt sameiginlegt með, að það sé einfaldlega rétt að leggja þessi stóru og flóknu viðfangsefni í dóm þjóðar sinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Til þess er þó mikilvægt að taka annars vegar góðan tíma og hins vegar að vinna samningsniðurstöðu á þeim tíma til að leggja fyrir þjóðina þannig að hægt sé að velja milli skýrra kosta. Ég held að það sé mikilvægt í þjóðaratkvæðagreiðslum almennt.