141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur úr hörðustu átt þegar hv. þingmaður segir í lok andsvars síns að það þurfi að leggja fyrir skýra valkosti en hann byrjaði andsvarið á að tala um þjóðaratkvæðagreiðsluna sem haldin var hérna 20. október. Það er óvart þannig að þar voru einmitt ekki skýrir valkostir og það var ein stór skoðanakönnun, mjög kostnaðarsöm, en sú skoðanakönnun var heldur ekki bindandi. Við lýstum okkur óbundin af þeirri niðurstöðu, einmitt vegna þess hversu óskýrir valkostirnir voru. Það er markleysi sem kom upp úr þeim kjörkössum og túlkunarvandi varð ofan á eins og séð var fyrir. Þetta er bara svo einfalt í mínum huga.

Hv. þingmaður víkur sér undan því að svara spurningunum: Við hvað er hann hræddur? Af hverju treystir hann ekki íslenskri þjóð til að taka afstöðu til spurningarinnar: Vilt þú halda viðræðum við Evrópusambandið áfram?

Það væri jafnvel hægt að hafa valkostina skýrari: Vilt þú að Ísland gangi í Evrópusambandið? Það er mjög auðvelt að segja annaðhvort já eða nei við þeirri spurningu. Það er hægt að hafa spurningarnar mjög skýrar. Ég væri til í að setjast niður með hv. þingmanni og finna út úr því. Spurningin er bara þessi: Af hverju á að hlusta á þjóðarviljann í einu máli en ekki öðrum? Við hvað er hv. þingmaður hræddur? Ég vil fá svar við þeirri spurningu vegna þess að það hefur ekki komið. Þangað til þýðir ekki fyrir hv. þingmann að tosa og teygja einhverjar skoðanakannanir og segja það nógu oft til að hann haldi að fólk fari að trúa því að það sé ljóst af þjóðarvilja að fólk vilji (Forseti hringir.) ljúka viðræðum. Það er ekki þannig ef litið er til þeirra mælikvarða (Forseti hringir.) sem í boði eru.