141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í þeim efnum sem eru til umræðu er sá hv. þingmaður sem hér stendur ekki hræddur við neitt, sannarlega ekki nokkurn skapaðan hlut, enda hygg ég að það sé að verða heilt ár síðan ég ljáði máls á því að leggja spurningu sem þessa fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel það þó ekki skynsamlegt eða neitt forgangsmál eða neitt sem er vert að eyða fjármunum í vegna þess að það er miklu betri kostur að ljúka samningaviðræðunum, hafa skýra valkosti á borðinu og greiða um þá atkvæði. Ég tel að það eigi ábyrgir stjórnmálaleiðtogar að gera vegna þess að þeir eiga einmitt að vera það á erfiðum tímum, leiðtogar.

Staðreyndin er sú að við erum ekki frjáls þjóð meðan við erum í höftum. Staðreyndin er sú að skuldastaða íslenska ríkisins er gríðarlega óhagstæð. Staðreyndin er sú að hér hefur gætt nokkurs landflótta eftir hrun. Staðreyndin er sú að samanburður í lífskjörum við helstu samkeppnislönd okkar hefur farið mjög versnandi fyrir okkur. Staðreyndin er sú að við höfum átt fremur erfitt með að fjármagna okkur á erlendum mörkuðum og draga að erlenda fjárfestingu.

Við eigum gjaldmiðil sem nokkurt pólitískt sammæli er um í öllum flokkum að sé ekki brúklegur fyrir okkur inn í framtíðina til að byggja hér efnahagslegan stöðugleika og varast þau reglulegu áföll sem dynja yfir fólk og fyrirtæki í landinu. Við þær aðstæður tel ég einfaldlega skyldu stjórnmálamanna að kanna til hlítar þá aðra kosti sem við eigum en núverandi stöðu í þessum efnum. Þess vegna eigum við einfaldlega að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og leggja niðurstöðuna í dóm þjóðarinnar sem mun kveða upp sinn dóm. Ef samningurinn er okkur hagfelldur, tryggir hagsmuni okkar, m.a. í sjávarútvegsmálum, tel ég nokkuð víst að íslenska þjóðin muni gjalda jáyrði við slíkum samningi. Sé samningurinn ekki góður mun hún einfaldlega hafna honum.