141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Á sínum tíma var enginn efi um afstöðu þingsins varðandi Líbíu. Þegar ég tók ákvörðun mína eftir að hafa hlustað á þingið í a.m.k. einni utandagskrárumræðu höfðu talsmenn allra flokka talað og þeir höfðu allir verið sammála. Af því að hv. þingmaður vísar til míns góða samstarfsflokks þá töluðu tveir af hans hálfu í þeirri umræðu. Annar gekk sýnu lengra en hinn og vísaði m.a. til hinnar merku en umdeildu ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frekar en allsherjarþingsins; „the responsibility to protect“, þannig að það fór ekkert á milli mála hvernig þingið lá í því máli. Ég hefði undir engum kringumstæðum talið þörf á því að láta þingið greiða atkvæði til að sýna vilja sinn vegna þess að hann var svo augljós. Allir sem töluðu í umræðunni voru sammála þessu.

Að því er varðar síðan þær breytingar sem verið er að leggja til að gerðar verði á stjórnarskránni verð ég að viðurkenna að ég hef að vísu ekki lesið röksemdafærsluna sem fram kemur í áliti hv. þingmanns og félaga hennar sem sæti eiga í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða í utanríkismálanefnd, en mér þætti gaman að vita hvaða sérfræðinga hún vísar þar til. Ég lít svo á, svo það komi algerlega skýrt fram, að jafnvel að samþykktri þessari breytingartillögu mundi það ekki hafa áhrif á þá ákvörðun sem við tókum á sínum tíma gagnvart Líbíu eða enn fyrr gagnvart Afganistan, vegna þess að þar var farið eftir ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Svo ég segi það algerlega skýrt; ef um það er að ræða að Atlantshafsbandalagið grípi til einhvers konar aðgerða sem eru í samræmi við slíkar ályktanir tel ég jafnvel að með samþykkt á þessu ákvæði séu þær heimilar og að íslenskum stjórnvöldum sé heimilt að taka þær.