141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:59]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet hæstv. ráðherra til að lesa álitið vegna þess að hann talar um allt aðra hluti en ég vek hér athygli á. Ef heimurinn væri svo einfaldur og veruleikinn væri svo skýr að það væri alltaf öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sem mundi koma saman og klára málin og við gætum bara haldið út í daginn með alla aðila að baki öllum ákvörðunum hefðum við ekki áhyggjur af þessu. En veruleikinn er ekki þannig. Til dæmis var í tilfelli Kosovo ekki öryggisráðssamþykkt fyrir inngripinu. Það var ákvörðun sem þurfti kjark til að taka og það þurfti að taka hana á stuttum tíma vegna þess að mannslíf voru í veði. Það var hörmulegt að horfa upp á það að Sameinuðu þjóðirnar gátu ekki klárað það mál. Það er mikilvægt að önnur ríki, bandalagsþjóðirnar í Atlantshafsbandalaginu, geri sér grein fyrir því að það þarf að gera og við erum búin að skuldbinda okkur til að vera þar. Þar er ekki neitunarvald og ríkin geta tekið ákvarðanir á skömmum tíma vegna þess að þau hafa skuldbundið sig til þess. Þau eru ekki með þess háttar ákvæði í stjórnarskrá. Þýskaland er með ákvæði í stjórnarskrá sinni um að ekki sé hægt að senda þýska hermenn á staðinn. Þess vegna stóð Þýskaland að samþykkt Atlantshafsbandalagsins í tilfelli Líbíu þrátt fyrir að þingið hefði samþykkt að senda ekki Þjóðverja. En Þýskaland samþykkti innan Norður-Atlantshafsráðsins að Þýskaland væri aðili að ákvörðuninni um að NATO færi inn en þó ekki með þátttöku þýskra hermanna og þar er munur á.

Varðandi Líbíu og öryggisráðssamþykktina, og ég vísa í nefndarálit okkar á bls. 97, er haft eftir hæstv. ráðherra Katrínu Jakobsdóttur, á Smugunni, með leyfi forseta:

„Afskipti Íslands af loftárásunum á Líbíu hófust þegar NATO gerðist aðili að átökunum. (Forseti hringir.) Við í Vinstri grænum höfðum þá þegar ályktað að við styddum ekki þessar árásir. Við teljum að þær séu ekki (Forseti hringir.) í samræmi við samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, hvaða skoðun sem menn kunna annars að hafa á þeirri samþykkt.“ (ÁÞS: … þótti fara út fyrir.)