141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[16:01]
Horfa

Arndís Soffía Sigurðardóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir yfirferð sína og skýrsluna um utanríkis- og alþjóðamál. Það er óumdeilanlega allt önnur ásýnd á utanríkisstefnu Íslands eftir að núverandi ríkisstjórn tók við. Breytingin er afar ánægjuleg hvað varðar baráttu fyrir mannréttindum á alþjóðavettvangi, friðarmálum og stöðu kvenna svo að eitthvað sé nefnt. Síðast en ekki síst er rétt að draga sérstaklega fram og hrósa hæstv. ríkisstjórn og hæstv. utanríkisráðherra fyrir framgöngu sína í málefnum Palestínu þar sem Ísland hefur nú skipað sér í forustu meðal vestrænna ríkja. Ég tek undir það sem kom fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra í byrjun umræðunnar að mikill sómi var að því fyrir Alþingi þegar sjálfstæði Palestínu var viðurkennt hér án mótatkvæða.

Ég er hins vegar ekki jafnhrifin af þeirri stefnu sem birtist í þessari skýrslu utanríkisráðherra um Evrópumál. Það sem mig langar til að gera að umtalsefni hér er lítill kafli í skýrslunni. Um er að ræða stuttan undirkafla í umfjöllun skýrslunnar um samningaviðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Undirkaflinn er nr. 3.3.7. og fjallar um félags- og atvinnumál. Þar er fjallað um vinnulöggjöf, heilbrigði og öryggi á vinnustöðum og vinnumálastefnu. Þar er líka fjallað um reglur um lágmarksviðmið á sviði atvinnuréttar, jafnréttis, heilbrigðis- og öryggismála á vinnustöðum og bann við mismunun. Þá kemur fram í skýrslunni að ekki hafi verið farið fram á aðlögunartímabil eða sérlausnir í samningsaðstöðu Íslands og viðræðurnar vegna kaflans standi nú yfir.

Ég staldraði við þennan kafla sérstaklega vegna þess að tilfinning mín við lestur hans var að menn væru helst til of afslappaðir gagnvart réttindum launafólks þegar kemur að aðild Íslands að ESB. Mér fannst ég skynja sama andvaraleysi og ég hef stundum skynjað á málflutningi forustu ASÍ þegar talað er um aðild að ESB. Ég geri mér grein fyrir því að aðild að ESB hljóti að fylgja bæði kostir og gallar þó að persónulega telji ég gallana vega mun þyngra. Ástæðan fyrir því að mér finnst menn of værukærir gagnvart réttindum launafólks þegar kemur að umræðunni um aðild Íslands að Evrópusambandinu er að ég held að menn sjái ofsjónum yfir stöðu launafólks við upptöku evru í ófyrirsjáanlegri framtíð eða tengingu við hana og gleymi því eða átti sig ekki á því að áskoranir fyrir launafólk hverfa ekki við það heldur verða þær einfaldlega aðrar.

Við sjáum þetta gerast í nágrannalöndunum. Ef við tökum sem dæmi Evrópusambandsríkið Danmörku þar sem gjaldmiðillinn er með einhvers konar tengingu við evru verjast fulltrúar launafólks þar nú umdeildum tillögum í nýlegum skýrslum frá Evrópusambandinu og hafa tekið málið upp við ríkisstjórn þar í landi. Í umræddum skýrslum Evrópusambandsins koma beinlínis fram tillögur um að skerða réttindi launafólks. Í skýrslunni Labour Market Developments in Europe kemur fram lýsing á hagkerfi þar sem atvinnuleysi er við það að festa sig í sessi og til að brjóta upp þá þróun eru lagðar fram tillögur frá Evrópusambandinu um aðgerðir á vinnumarkaði. Meðal þessara tillagna eru lægri lágmarkslaun og að fyrirtæki fái aukið svigrúm til að semja um laun og kjör. Í skýrslunni er beinlínis fjallað um að draga úr félagslegum áhrifum við gerð kjarasamninga. Aðrar sérstakar tillögur Evrópusambandsins til aðildarríkja eru lækkun atvinnuleysisbóta, takmarkaðar kröfur til að greiða yfirvinnu, aukið hlutfall lausráðinna starfsmanna, lækkun lífeyris og hækkun eftirlaunaaldurs. Þessar hugmyndir Evrópusambandsins um þróun á vinnumarkaði hafa vakið hörð viðbrögð fulltrúa launafólks í Danmörku og hafa þeir beðið stjórnvöld þar í landi um að vera vakandi gagnvart tillögum sem þessum. Þar í landi er sú staðreynd að þessar tillögur Evrópusambandsins skuli yfirhöfuð vera lagðar fram teknar mjög alvarlega, hvort sem þær ná fram að ganga eða ekki. Hérlendis virðast menn ekki deila þessum áhyggjum og hafa greinilega ekki neinar áhyggjur af þessu í yfirstandandi samningaviðræðum eins og þessi skýrsla ber með sér. Nóg um það.

Mér hefur alltaf verið kennt að þegar maður gagnrýnir eitthvað á neikvæðan hátt verði maður að hrósa líka til að menn taki mark á gagnrýninni. Þó að ég geti haft mörg neikvæð orð um 3. kafla skýrslunnar, sem fjallar um samningaviðræður við ESB, verð ég að hrósa fyrir eitt afar stórt atriði sem kemur fram í einni setningu á bls. 21. Þar er greint frá því að í samningum um utanríkis- og öryggismál hafi verið gefin út sérstök yfirlýsing þar sem herleysi Íslands er tryggt með skýrum hætti komi til aðildar. Ég gef prik fyrir það þó að ég trúi því reyndar að ekki muni koma til aðildar.