141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[20:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var athyglisverð ræða hjá hv. þingmanni. Mér finnst hann horfa fram hjá þeirri staðreynd þegar hann horfir á evruna og evrusvæðið að þær hremmingar sem hafa gengið yfir evrusvæðið eru ekki hremmingar evrunnar, þetta er ekki gjaldmiðilskreppa heldur skuldakreppa, það liggur alveg ljóst fyrir. Evran kemur bara nokkuð vel út úr því dæmi öllu saman, hún hefur styrkst meðan þær hremmingar hafa gengið yfir, a.m.k. gagnvart bandaríkjadal. Hv. þingmaður ætti að hugsa um það.

Ég ætla svo ekki að andmæla því þegar hann segir að líklegt sé að í framtíðinni verði Evrópusambandið tveggja laga samband, en það er það nú þegar í dag og ég ætla ekki að fara út í það frekar. Hv. þingmaður spyr í hvaða Evrópusamband eða hvaða hluta þess við munum ganga. Þann sama og framtíðarumsóknarríki munu freista þess að komast í, þ.e. evruhlutann, það liggur alveg ljóst fyrir. Öll ríki sem ganga þar inn núna verða að taka upp evruna innan einhvers tíma, meira að segja Svíþjóð þótt það sé alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þeir hafa sínar leiðir til þess að standa í eigin sporum sem ganga vel hjá þeim.

Ég tel hins vegar af og frá, það er kannski það eina sem ég er algjörlega ósammála hv. þingmanni um, að Evrópusambandið eigi eftir að þróast í stórt sameinað ríki eins og Bandaríkin. Reyndar kom hann síðar í ræðu sinni með þann hlut sem ég held að skipti mestu máli varðandi það og það er menningarlegur þáttur, þ.e. að í Bandaríkjunum tala allir sama tungumálið en því er ekki til að dreifa í Evrópu. Það skiptir máli gagnvart svonalöguðu.

Ég er honum líka sammála um að líklegt sé að það verði aukinn samruni í hinum fjármálalega þætti Evrópusambandsins en ég tel það ekki af hinu illa. (Forseti hringir.) Hins vegar er ég alveg sannfærður um að innan Evrópu eru skoðanir þannig að menn munu alltaf reisa skorður við því að til verði sambandsríki.