141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[20:10]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi friðinn í Evrópu. Ég tel að þar hafi reyndar skipt meiru samstarf Evrópuríkjanna við Bandaríkin á vettvangi NATO, að það hafi í raun og veru tryggt friðinn mun betur í Evrópu og hafi verið forsenda þess að friður hefur að mestu haldist frá síðari heimsstyrjöldinni í Evrópu. Ég minni þó á þau vandamál sem urðu á Balkanskaganum ekki fyrir margt löngu síðan sem Evrópuríkjunum gekk illa að fást við og var frekar lítt til sóma fyrir þau hvernig öll sú atburðarás gekk fram.

Hvað varðar vaxtamuninn og stöðuna hér og möguleika okkar til að sveiflujafna er það hárrétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að ef gengjum í ESB og værum í evrusamstarfinu ættum við allt undir því að sjávarútvegurinn gæti sveiflujafnað hjá sér eða eins og hæstv. ráðherra orðaði það, að hann væri nægjanlega feitur eða gildur eða þykkur til að hann gæti brugðist við, (Utanrrh.: Bara eins og utanríkisráðherra.) þannig að það væri einhvers konar samsvörun á milli utanríkisráðherra og sjávarútvegsins, hann væri jafnlíflegur og kátur.

Því miður er það nú svo, og ég þarf ekki að eyða mörgum orðum í það, að þessi ríkisstjórn hefur farið þannig fram gagnvart sjávarútveginum, (Gripið fram í.) ekki bara hvað varðar gjaldtökuna, að nú liggur fyrir frumvarp hér í þinginu um að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu þannig að það stórdregur úr hagkvæmni greinarinnar og gerir henni mun erfiðara fyrir en annars væri að mæta óvæntum sveiflum eða fyrirséðum sveiflum, hvernig sem menn vilja horfa á það. Þess vegna er ekki neitt samræmi í stefnu ríkisstjórnarinnar sem annars vegar sækir um aðild að ESB og leggur hins vegar upp með meginatvinnugrein (Forseti hringir.) þjóðarinnar, sjávarútveginn, að gera honum það raunverulega algjörlega ómögulegt að starfa innan þess umhverfis sem biði hans.