141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[20:12]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Þar var margt athyglisvert og hann fór vel ofan í málin.

Það sem mig langaði að velta upp við hv. þingmann er að í aðdraganda þess að Spánn, Grikkland, Portúgal og Ítalía lentu í sínum erfiðleikum, eins og kunnugt er, var það svo, og maður hefur lesið erlendar fræðigreinar um það, að vandamálið til að mynda á Spáni var að sínum tíma hefðu þeir í rauninni þurft hærra vaxtastig en raunin varð. Ástæða þess að það var ekki var af því að verið var að keyra á þýsku vaxtastigi vegna þess að hagsveiflur Evrópusambandsins stýrast ekki síst af ríkjunum sem eru í Þýskalandi og þar í kring. Afleiðingin varð síðan sú að bóla blés miklu meira út á Spáni vegna þess að vaxtastigið hentaði Spáni ekki á sínum tíma.

Vandamálið á Spáni núna er að menn ná ekki að taka á í atvinnulífinu þar og við fáum fregnir af því að bæði á Spáni og í Portúgal, og sérstaklega í Portúgal þar sem ástandið var svipað, eru íbúar farnir að leita yfir til Angóla í atvinnuleit. Atvinnuleysi er að aukast svo á Spáni vegna þess að þeir ná ekki að nota gjaldmiðilinn til að rétta sig af, ná ekki að aðlaga hagkerfið að því sem nauðsynlegt er fyrir atvinnulífið.

Mig langar að velta því upp við hv. þingmann af því að hér voru umræður um sambandsríki við hæstv. utanríkisráðherra áðan og flestir sem tjá sig um þau mál opinberlega, hagfræðingar og aðrir, telja að eina lausn evrunnar sé sú að fara í átt til sambandsríkis. Það er verið að hækka skatta sem aðildarríki greiða til Evrópusambandsins, taka upp ESB-fjárlög eða auka útgjöld Evrópusambandsins. Það er það sem meðal annars felst í sambandsríki. Sér hv. þingmaður fyrir sér, miðað við hvernig hæstv. utanríkisráðherra talar, að einhver möguleiki sé á að bjarga evrunni öðruvísi (Forseti hringir.) en akkúrat svona, að fara í átt til sambandsríkis, hækka hlutfall sem ríki greiða beint til Evrópusambandsins (Forseti hringir.) og síðan útdeilingar á fjármagni þar út? Það er skilgreiningin á sambandsríki.