141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[20:17]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er akkúrat sá skilningur sem sá sem hér stendur hefur haft á þessum hlutum. Eina leiðin hjá þessum ríkjum er að færa aukið fjármagn, það er að hvert og eitt aðildarríki greiði hærra hlutfall inn til Evrópusambandsins og þaðan sé fjármununum útdeilt. Þannig ná þau að búa til eitt ríki og síðan er stoðunum fjölgað þar undir.

Maður veltir óneitanlega fyrir sér hvaða ríkjum þetta muni koma verst niður á. Til lengri tíma litið mun þetta líklegast koma verst niður á þeim ríkjum sem eiga möguleika á því að auka sína vergu landsframleiðslu á hvern einstakling. Menn eru almennt sammála um að 21. öldin verði öld þar sem vatnið, maturinn, auðlindirnar og orkan skipti máli. Það mun að öllum líkindum verða gull 21. aldarinnar.

Menn eru til að mynda að spá því að Kína verði orðið stærra hagkerfi en Bandaríkin árið 2025 og menn spá því líka að hagkerfi Kanada og ríki Norður-Ameríku muni halda áfram að rísa. Mig langar að velta upp hvort hv. þingmaður hafi eitthvað skoðað spár varðandi þessi stærstu hagkerfi heimsins, aldurssamsetningu og mögulegar hagvaxtarhorfur í Evrópusambandinu gagnvart Kína, Indlandi, Rússlandi, Brasilíu og Kanada. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér stöðu Íslands þarna á milli, okkar litla eyríkis? Á 21. öldinni lítur út fyrir að staðsetning landsins verði meira virði en verið hefur. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að Evrópusambandið þróist versus þessi stóru hagkerfi? Er ekki rétt skilið að almennt séu hagvaxtarspár fyrir Evrópusambandið frekar neikvæðar, sé borið saman við þessi stóru hagkerfi?