141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[20:19]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má með sanni segja að sú öld sem nú er upp runnin sé sú öld sem fáliðan virði. Tækifæri og möguleikar smáþjóðar sem býr að þeim landkostum sem hv. þingmaður taldi hér upp eru mjög miklir. Hvað varðar stöðu Evrópu samanborið við þau hagkerfi sem talin voru upp, þessi ört vaxandi hagkerfi, er í mínum huga engin spurning að Evrópuvandinn er ekki bara vandi sem snýr að gjaldmiðlinum og hvernig menn ætla sér að breyta samstarfi evruríkjanna til þess að það gangi upp. Hann er ekki bara skuldavandi vegna bankakreppunnar. Vandi Evrópu að því viðbættu er meðal annars sá að aldurssamsetning íbúanna er orðin mjög óheppileg. Hár meðalaldur gerir það að verkum að þeim fækkar sem eru starfandi á vinnumarkaði og þeim fjölgar sem þurfa á lífeyrissjóðsgreiðslum að halda.

Sá vandi er ófjármagnaður og óleystur og var eitt af því sem menn höfðu mestar áhyggjur af áður en gjaldmiðlavandinn og lánakreppan skall á álfunni. Þar fyrir utan hefur framleiðniaukningin, sem er lykilatriði, verið allt of lítil í Evrópu. Þegar menn bera Evrópusambandið saman til dæmis við Bandaríkin og síðan við þau ríki sem er við að keppa — ef menn vilja nota það hugtak að ríkið sé að keppa á þessu sviði — þá vex framleiðni þar ekki nógu hratt. Of lítil framleiðni, of hár meðalaldur, of miklar skuldir og óafgreitt hvernig menn ætla sér að láta evruna virka til framtíðar, þegar þetta vinnur saman verð ég að segja að ég gleðst mjög yfir því að hæstv. utanríkisráðherra sé við það að ganga frá fríverslunarsamningi við Kína. (Forseti hringir.) Hann mundi skapa okkur mikil tækifæri.