141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[20:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa ræðu og þá skýrslu sem liggur fyrir. Ég verð að játa að skemmtilegasti hluti skýrslunnar var auðvitað formáli hæstv. ráðherra sem ég átti auðvelt með að skilja, enda skrifaður á fjörmiklu máli. Það var aðeins eitt orð sem mig rak í vörðurnar og ég þurfti sérstaklega að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um þýðingu þess. Hann notaði orðið óínáandisk, sem hæstv. ráðherra tjáði mér að þýddi þegar ekki næst í menn.

Eitt af því sem ég hef gagnrýnt í utanríkisstefnunni til lengri tíma er að mér hefur fundist hún ekki vera nægilega markviss á köflum. Að við séum að reyna að leika dálitla stórþjóð sem vilji bera allar sorgir heimsins og áhersluatriðin séu þess vegna ekki alveg nægjanlega markviss. Við séum að teygja okkur út um allar þorpagrundir heimsins þótt við blasi að önnur einstök mál eru okkur miklu mikilvægari. Hér á ég til dæmis við norðurslóðamál, sem ég fagna að hæstv. ráðherra hafi lagt mikla áherslu á og telji í skýrslu sinni vera lykiláherslumál í okkar utanríkisstefnu. Ég á líka við samskiptin við Grænland sem ég tel að hljóti að vaxa mjög á allra næstu árum í ljósi þess að efnahagsleg umsvif á Grænlandi fara mjög vaxandi. Í þessu sambandi vil ég líka nefna sérstaklega hafréttarmál og okkar viðhorf í því sambandi. Við eigum að standa við það sem við höfum fylgt í gegnum tíðina, rétt okkar til þeirra hafsvæða sem rök mæla fyrir um að við eigum rétt á. Við eigum að mínu mati að reyna að efla þá starfsemi mjög og byggja upp enn öflugri svið á þessum mælikvarða. Þar höfum við oft á tíðum verið í sögulegri forustu eins og við þekkjum, þarna eru okkar tækifæri.

Ég legg einnig áherslu á að við fylgjum eftir þeirri stefnumótun sem meðal annars Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt mikla áherslu á, við eigum að styðja við svæðisbundið samstarf á þessu sviði, eins og til dæmis NEAFC og NAFO. Úr því að hæstv. utanríkisráðherra heyrir mál mitt vil ég segja í fáeinum atriðum að ég var að gagnrýna það að mér finnst stundum eins og við séum svolítið að reyna að bera allar sorgir heimsins í utanríkisstefnu okkar. Ég hef verið að leggja áherslu á að við reyndum frekar að einbeita okkur að ýmsum málum eins og norðurslóðamálum. Ég hældi hæstv. ráðherra í því sambandi, fyrir hafréttarmálin og hið svæðisbundna samstarf.

Það kom mér á óvart hversu hæstv. utanríkisráðherra var afdráttarlaus í sínu máli varðandi EES. Ég þekki auðvitað afstöðu hæstv. ráðherra til Evrópusambandsins. Ég veit að hæstv. ráðherra telur óhjákvæmilegt fyrir okkur að ganga í Evrópusambandið og að það þjóni okkar hagsmunum betur. En það kom engu að síður nokkuð á óvart hversu hæstv. ráðherra var afdráttarlaus í þeirri skoðun sinni að hið Evrópska efnahagssvæði væri að ganga sér til húðar. Hann taldi að ýmislegt væri í samstarfi Evrópusambandsins við EES sem benti til þess að mjög erfitt væri að þróa það samstarf áfram.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra um þetta mál sérstaklega vegna þess að það er mjög brýnt. Nú blása vindar þannig, eins og allir sjá og finna, að ákaflega lítill vilji er hjá þjóðinni að ganga í Evrópusambandið. Ég vil fullyrða að ef allir hér á Alþingi gengju með óbundnar hendur til atkvæðagreiðslu um Evrópusambandið yrði tillaga um aðild að Evrópusambandinu alveg skilyrðislaust felld. Þá stæðum við auðvitað frammi fyrir ákveðnu vali.

Þá vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Ef sú verður raunin, sem ég veit að hann vonar ekki en ég vona, að við munum ekki verða aðilar að Evrópusambandinu, hvernig lítur hann á framtíðarsamstarfið innan EES? Er hæstv. ráðherra að boða einhvers konar ragnarök fyrir Evrópska efnahagssvæðið? Telur hæstv. ráðherra að Evrópska efnahagssvæðið sé smám saman að ganga sína för á enda?

Ég vil líka segja að varðandi Evrópusambandsumsóknina var það þannig, eins og við munum, að þeir sem töluðu fyrir Evrópusambandinu, og við reyndar fleiri sem líka voru mjög gagnrýnin á aðildarumsóknina og andvíg henni, töldu að mjög mikilvægt væri að taka strax á við erfiðustu tvö stóru málin, landbúnaðarmálin og sjávarútvegsmálin. Það kom mjög skýrt fram frá hæstv. ráðherrum, meðal annars hæstv. utanríkisráðherra og ég tala nú ekki um hæstv. innanríkisráðherra. Síðan steyta málin á skeri. Farið er að tína upp þessa litlu málaflokka sem við erum þegar búin að samræma evrópsku löggjöfinni, en hin málin eru komin á hliðarlínuna.

Nú vil ég segja að ég tel að þegar ljóst var að Evrópusambandið vildi ekki ræða við okkur um sjávarútvegsmál eða landbúnaðarmál, þótt hæstv. ráðherra hafi látið í veðri vaka að þetta sé innanhéraðsmál og innanhéraðsvandamál okkar Íslendinga er það engu að síður staðreyndin varðandi landbúnaðarkaflann líka, þá hefði ég talið eðlilegt að við hefðum látið staðar numið. Við hefðum einfaldlega átt að steyta þarna á skeri og segja að úr því að svo væri komið þjónaði það ekki íslenskum hagsmunum að ganga til vinnunnar með þeim hætti sem gert var síðan, að smám saman að reyna að opna kafla og loka köflum og svo framvegis og láta stóru málin bíða.

Ljóst er að samrunaþróunin innan Evrópu hefur ýtt undir tilhneigingu til þess að Evrópusambandið seilist um hurð til lokunnar. Við sjáum það í mörgum tilvikum og kannski einna skýrast þegar kemur að hugmyndum um hið sameiginlega fjármálaeftirlit. Í raun og veru er verið að reyna að freista þess að brjóta niður tveggja stoða kerfið sem EES-samningurinn byggir á, eins og margoft hefur verið farið yfir og hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gerði mjög vel grein fyrir hérna áðan.

Tveggja stoða kerfið byggir á því að við afsölum tilteknu valdi til stofnana sem við erum aðilar að, eins og við þekkjum. Við getum nefnt ESA og EFTA-dómstólinn í þessu sambandi, en núna sjáum við tilhneigingu af hálfu Evrópusambandsins til að reyna að teygja á samstarfi EES-ríkjanna með því að ætlast til þess að við afsölum okkur hluta af fullveldi okkar til stofnana sem við eigum ekki aðild að. Það er auðvitað alveg fráleitt. Við sjáum líka að þeirrar tilhneigingar gætir hérna á Alþingi því í nýju frumvarpi um stjórnarskrá er beinlínis gert ráð fyrir að við afsölum okkur hluta af fullveldi okkar til stofnana sem við erum ekki einu sinni aðilar að. Þetta er mjög alvarlegt.

Það sem ég vil segja um þessa tilhneigingu Evrópusambandsins er að hún er að mínu mati hrein svik og hrein brigð. Ef Evrópusambandið virðir ekki tveggja stoða kerfið, ef Evrópusambandið reynir með einhverjum hætti að brjóta það niður með þeirri tilhneigingu sem ég var hér að gera að umtalsefni, eru það svik við það samkomulag sem gert var í öndverðu um EES. Ef reynt verður að beita okkur þrýstingi, pólitískum eða efnahagslegum, þá er það ígildi viðskiptaþvingana. Það er ígildi efnahagslegrar árásar ef á að reyna að pína okkur með efnahagslegum aðgerðum til þess að fallast á það að brjóta niður tveggja stoða kerfið.

Virðulegi forseti. Megingallinn við þá umræðu sem hefur farið fram um Evrópusambandið er sá að menn hafa verið að stilla upp kostunum með röngum hætti. Annars vegar hefur verið sagt að við eigum þess kost að ganga í Evrópusambandið með samningi sem þjóðin fallist á, hitt er að við gætum stefnt í einhvers konar pólitíska einangrun innan þess samstarfs sem við höfum kosið okkur innan EES. Þetta er ekki þannig.

Samhljóða niðurstaða Evrópunefndarinnar sem hæstv. utanríkisráðherra nefndi nokkrum sinnum í ræðunni hér í dag var sú að frá árinu 2007 gætum við einmitt þróað samstarf Evrópska efnahagssvæðisins með miklu virkari hætti en við höfum verið að gera. Við gætum gert það með margvíslegu móti, með auknu samstarfi stjórnmálamanna á vettvangi Alþingis, með auknu samstarfi ríkjanna, með auknu samstarfi alls konar hagsmunasamtaka, með auknu samstarfi sveitarfélaga, auknu samstarfi menntastofnana og þar fram eftir götunum.

Það er annar kostur í stöðunni. Þrátt fyrir að hæstv. ríkisstjórn hafi verið að berjast fyrir inngöngu í Evrópusambandið hefði hún að minnsta kosti jöfnum höndum átt að reyna að þróa samstarfið innan EES með virkari hætti (Forseti hringir.) en hún hefur verið að gera, á grundvelli þeirrar skýrslu sem við hæstv. utanríkisráðherra skrifuðum nafn okkar undir báðir tveir.