141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[20:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er pólitískt vandamál sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir, hvernig við eigum að reyna að spila úr EES-samningnum. Ég er að sjálfsögðu þeirrar skoðunar að ef Ísland gengur ekki í Evrópusambandið sé okkur mjög hagkvæmt að halda í EES-samninginn. En eftir því sem árin hafa liðið hefur stöðugt verið þrengt að okkur og stöðu okkar innan samningsins. Ástæðan er meðal annars sú að í vaxandi mæli koma upp álitaefni stjórnskipulegs eðlis sem erfitt er fyrir okkur að leysa úr án þess að breyta stjórnarskránni. Það er þess vegna meðal annars sem ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að nota endurskoðun stjórnarskrárinnar núna til að auka heimildir til að framselja ríkisvald, meðal annars til að geta brugðist við því.

Í skýrslunni eru rakin margvísleg dæmi. Þau eru gerólík, eitt er til dæmis risastórt, þ.e. fjárhagseftirlitskerfið. Ég get tekið dæmi af öðru sem hefur komið upp og er á borðinu hjá okkur núna sem varðar barnalyf. Við höfum líka staðið frammi fyrir því að þessi mál hafa verið leyst á grundvelli tveggja stoða kerfisins eins og til dæmis í smámálum eins og varðandi fésektir sem tengjast flugverndarmálum þar sem sektarvald er fært út úr landinu til ESA. Mér hugnast það ekkert voðalega vel. Ég er ekki sannfærður um að það sé algjörlega í anda stjórnarskrárinnar. Ég verð bara að segja það alveg eins og er.

Það er ágætt að hv. þingmaður taki þetta mál hér upp. Það kann vel að vera að eftir kosningar muni til dæmis ríkisstjórn með hans flokk innan borðs standa frammi fyrir þessum vandamálum. Hvernig eigum við þá að leysa þau? Það er gott að segja hér: Við eigum bara að vera hörð við ESB. En það er einfaldlega þannig að þetta mál snertir ekki bara okkur. Ef við getum til dæmis ekki tekið upp einstakar gerðir, þýðir það (Forseti hringir.) að það er ekki heldur heimilt fyrir Noreg og Liechtenstein. Með öðrum orðum getur þetta líka haft (Forseti hringir.) mjög neikvæð áhrif fyrir þau ríki, aðgerðir eða aðgerðaleysi okkar.