141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[20:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil að mörgu leyti fagna þessari ræðu hæstv. ráðherra vegna þess að mér finnst að hann hafi í þessu andsvari verið mun jákvæðari gagnvart framtíðarhorfunum innan EES en mér fannst í ýmsum ræðum og andsvörum hér fyrr í dag. Þar fannst mér hæstv. ráðherra nánast vera með dómsdagsspár fyrir hönd EES-samstarfsins, að það væri nánast orðið eins og vandræðabarn í samstarfinu við Evrópusambandið. En þann tón var ekki að heyra í ræðu hæstv. ráðherra núna. Það fannst mér út af fyrir sig jákvætt.

Það er alveg rétt að við höfum staðið frammi fyrir stjórnskipulegum álitamálum í ýmsum efnum eins og hæstv. ráðherra nefndi dæmi um. Það dæmi sem hann nefndi varðandi flugið, það dæmi sem við vorum að glíma við nú fyrir áramótin varðandi útblástursreglurnar þegar við stóðum frammi fyrir því að geta ekki verið aðilar að gjafakvótakerfum með framseljanlegum heimildum í sambandi við loftslagið o.s.frv. — þetta er auðvitað eitt og sér og þetta er viðfangsefni sem við þurfum örugglega að glíma við.

Það sem ég var kannski að gera að miklu stærra umræðuefni, og mér finnst vera miklu meira álitaefni, er það sem gæti verið, og mér finnst blasa við að svo sé, ákveðin tilhneiging, þ.e. að Evrópusambandið sé að reyna að teygja mjög á þessu tveggja stoða kerfi, veikja það með til dæmis hugmyndum um að hið samevrópska fjármálaeftirlit nái líka til EES-landanna. Það tel ég að sé hið varhugaverða í þessum efnum.

En ég undirstrika það og árétta að það er annar valkostur í þessu máli. Sá valkostur var mjög skýrlega settur fram í skýrslu Evrópunefndarinnar undir forustu Björns Bjarnasonar á sínum tíma þar sem lögð var áhersla á frekara pólitískt samstarf við Evrópusambandið. Það er sú leið sem ég teldi langskynsamlegast fyrir okkur að reyna að þróa og gera það með markvissum hætti.