141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[20:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Það sem þrengir kastrými okkar eru líka breytingar sem hafa orðið innan ESB. Við vitum að á síðustu árum hefur Evrópuþingið fengið miklu meira vægi og miklu meiri völd og er nánast að verða ein af valdamestu stofnunum innan Evrópusambandsins. Það leiðréttir ákveðinn lýðræðishalla innan sambandsins, það eykur hann gagnvart okkur. Það þýðir að það er miklu verra við okkur að eiga við ákvarðanir sem hafa endað í samráðsferlinu og Evrópuþingið hefur að lokum yfirhöndina í niðurstöðunni. Þannig er bara kerfið orðið í dag. Það er eitt.

Í annan stað er það síðan, af því hv. þingmaður talar um tveggja stoða kerfið, bara mín reynsla — og var svo sem farið að glitta í það áður en ég varð utanríkisráðherra, á þeim tíma þegar ég starfaði í þingmannanefnd EFTA — að stofnanaminni hefur förlast svo innan ESB að það eru bara sumir sem bókstaflega gera sér ekki grein fyrir tveggja stoða kerfinu. Allt um það.

Þetta eru praktísk vandamál sem við stöndum frammi fyrir. En það er ein spurning sem vaknar í mínum huga. Þegar við erum að reyna að leysa þetta hálfvegis á hrakhólum — til dæmis með því að beita tveggja stoða kerfinu eins og með því að láta ESA verða eins konar stofnun sem getur haft þetta yfirþjóðlega vald gagnvart okkur, til dæmis að því er varðar fésektir — velti ég því fyrir mér, þó að það sé auðvitað töluverður munur, hvort það sé bitamunur eða fjár annars vegar að framselja sitt vald til stofnunar eins og ESA, þar sem eru tvö erlend ríki, eða til ESB þar sem eru 28 ríki þar sem við værum 28. ríkið. Er eðlismunur á því? Er það ekki með sama hætti framsal á ríkisvaldi? Það er það sem hv. þingmaður er á móti. En er hægt að vera eitthvað meira sammála með því að framselja ríkisvaldið til ESA? Það er smærra í sniðum, það er hægt að segja það. Ég er ekki alveg (Forseti hringir.) viss, þegar allt er skoðað ofan í kjölinn, um að svo sé ef maður vill vera algjörlega samkvæmur sjálfum sér.