141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[20:50]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég er búinn að fylgjast með umræðunni meira og minna í allan dag og ég verð að byrja á því að segja um þessa blessuðu skýrslu hæstv. utanríkisráðherra að auðvitað er góðra gjalda vert að utanríkisráðherra beri okkur skýrslu sína árlega. En í fyrsta lagi er ekki mikið um staðreyndir í inngangskafla skýrslunnar, hann er meira skrifaður eins og einhver skáldsaga. Og ég verð að segja eins og er að þegar maður les þessa skýrslu alla, og þá vil ég nefna sérstaklega kaflann um Evrópusambandsumsóknina, þá ber hún þess merki að verið er að beita bullandi áróðri fyrir Evrópusambandsaðild. Víða eru teknar inn röksemdir í þá átt og skýrslan beinlínis notuð til að tala fyrir sjónarmiðum sem meiri hluti þjóðarinnar er einfaldlega andsnúinn.

Hæstv. utanríkisráðherra kemur meðal annars inn á það í inngangskafla sínum í umfjöllun um lýðræði að það sé af lýðræðisástinni einni saman sem hæstv. utanríkisráðherra keyri Evrópusambandsumsóknina áfram. Þá ber að minna á það að ríkisstjórnin hefur allt þetta kjörtímabil beinlínis unnið gegn því að þetta mál gæti fengið að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vil benda á að þegar umsóknin var lögð inn á sínum tíma beitti ríkisstjórnin miklu harðræði í þingsal og á göngum þingsins til að tryggja að tillaga um að ESB-umsóknin færi í þjóðaratkvæðagreiðslu yrði felld.

Ég vil líka minna á hvað gerðist þegar til stóð um jólin að leggja til að Evrópusambandsumsóknin yrði lögð til hliðar og að umræður hæfust ekki aftur fyrr að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Allar skoðanakannanir hafa sýnt undanfarið að það er stuðningur í samfélaginu við að hætta aðildarviðræðum. Andstaðan er gríðarlega mikil við umsóknina um aðild að Evrópusambandinu. En hvað gerir ríkisstjórnin þá? Þá stokkar hún skyndilega upp í öllum nefndum og hendir hv. þm. Jóni Bjarnasyni út úr utanríkismálanefnd til að tryggja að slík tillaga nái ekki inn í þingið. Þetta er því eins og það er. Það er ótrúlegt að menn geti farið fram með málflutning eins og er í þessari skýrslu.

Það er eitt sem mig langar að gera sérstaklega að umtalsefni og það er það hlé sem búið er að gera á aðildarviðræðunum við Evrópusambandið, að sögn ríkisstjórnarinnar. Þegar frétt barst um þetta hlé kemur hæstv. atvinnuvegaráðherra og talar um að það sé mikilvægt að gera hlé á þessu máli. En þegar menn skoða þetta kemur auðvitað í ljós að það er ekkert verið að gera hlé á aðildarviðræðunum. Þetta var bara sýndarmennska til að reyna að koma sökkvandi skipi til bjargar eftir gríðarleg svik í Evrópusambandsmálinu allt kjörtímabilið. Það stóð ekki til að opna neina nýja kafla á þessu vorþingi. Það lá ljóst fyrir að mjög stutt væri í kosningar og vinna við alla aðra kafla sem eru opnir héldi áfram.

Maður heyrir það innan úr utanríkisráðuneytinu að starfsmenn þar hlæi hálfpartinn að þessu og tali um að nú séu þeir farnir að pikka á lyklaborðið á minni hraða en þeir gerðu fyrir áramót, menn gangi hægar um flugstöðina þegar þeir eru á leið til Brussel, menn helli kaffinu hægar í kaffibollann o.s.frv., vegna þess að það sé búið að hægja á aðildarviðræðunum. En auðvitað er það ekki svo. Þetta ferli er í fullum gangi og hléið er fullkomið sýndarhlé til að reyna að hjálpa Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem hefur svikið þetta mál allt þetta kjörtímabil enda sögðu forustumenn flokksins daginn fyrir kjördag að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu.

Það er líka annað sem hefur komið fram í umræðunum, m.a. í máli manna hér í dag, sem er mjög mikilvægt að taka til umfjöllunar og það er hversu mikil örvæntingin er orðin hjá þingflokki Samfylkingarinnar og dótturflokki hennar, Bjartri framtíð, í þessu máli. Þar eru menn farnir að tala um að öll tvíhliða samskipti, m.a. í gegnum EES-samninginn, séu í algjöru uppnámi ef við gerumst ekki aðilar að Evrópusambandinu.

Mér hefur þótt skorta svolítið á í þeirri umræðu að menn horfi til nágranna okkar í þessu sambandi, horfi m.a. til Noregs og þess sem er að gerast þar. Andstaðan við Evrópusambandsaðild í Noregi er gríðarlega mikil, hún er miklu meiri en hér og þó er hún mikil hér á landi. Í Noregi er nýbúið að gera úttekt á þessum málum vegna þess að mikill þrýstingur er á það þar að horfið verði frá því fullveldisafsali sem EES-samningurinn felur í sér. Staðreyndin er sú að Noregur ætlar ekki að ganga í Evrópusambandið. Staðreyndin er líka sú að mikið af orku Evrópusambandsins kemur einmitt frá Noregi, bæði með útflutningi á olíu og í útflutningi á raforku. Halda menn virkilega að Evrópusambandið ætli sér að koma fram við Noreg með þessum hætti? Nei. Það er auðvitað bara til heimabrúks sem menn tala á þennan veg hér vegna þess að örvæntingin er orðin svo mikil, örvæntingin vegna Evrópusambandsumsóknarinnar. Það fjarar meira undan henni dag hvern. Þá byrja menn á hræðsluáróðri eins og þessum.

Vissulega þarf að taka þessi samskipti til skoðunar en við eigum ekki að hafa nokkrar áhyggjur af því vegna þess að þarna er annað ríki, Noregur, sem Evrópusambandið þarf mjög mikið á að halda. Þetta er sami hræðsluáróðurinn og menn beita í verðtryggingarumræðunni þegar þeir segja að ekki sé hægt að afnema verðtrygginguna. Það er reyndar gert í þessari skýrslu líka þar sem utanríkisráðherra heldur því beinlínis fram að ekki sé hægt að afnema verðtrygginguna á Íslandi nema Ísland gangi í Evrópusambandið. Þetta er sami hræðsluáróðurinn. Ef það væri þannig ættu menn auðvitað að vera búnir að stöðva það að bankarnir veittu óverðtryggð lán í dag. Þetta er af sama meiði og er hreint og klárt bull, herra forseti.

Ef maður horfir á stöðuna á Íslandi í dag er andstaðan gríðarlega mikil við Evrópusambandsaðild. Hér hefur verið komið inn á það að Evrópusambandið er að þróast í átt til sambandsríkis. Vandi evrusvæðisins gerir það að verkum að hækka þarf fjárframlög sem renna til Evrópusambandsins og Evrópusambandið úthlutar síðan þeim fjárframlögum. Það er meðal annars þetta sem felst í auknum samruna. Hann mun koma verst niður á þeim ríkjum þar sem möguleikar eru til að auka verga landsframleiðslu, möguleikar til að sækja fram og auka tekjur eins og á Íslandi. Til lengri tíma litið, sé horft á hagvaxtarspár í Evrópusambandinu og aldurssamsetningu þar, og það borið saman við önnur stærstu hagkerfi heims liggur ljóst fyrir að Evrópusambandið er hnignandi hagkerfi. Þetta er hagkerfi sem flestum sem fjalla um þessi mál, hagfræðingum og öðrum, ber saman um að mun ekki vaxa á 21. öldinni, þetta er hagkerfi sem er að dragast saman.

Skýrsla utanríkisráðherra sýnir líka að menn eru jafnvel farnir að átta sig á því að þessi umsókn er að stranda og þá er ég að vísa til þess að menn hafa blásið nýju lífi í gerð fríverslunarsamnings við eitt mest vaxandi hagkerfi heimsins, Kína. Staðreyndin er sú að ef við gerumst aðilar að Evrópusambandinu mun sá fríverslunarsamningur falla úr gildi. Þetta ber því þess merki að menn í utanríkisráðuneytinu séu búnir að átta sig á því að Evrópusambandsumsóknin sé að stranda.

Ég vil bara segja, herra forseti, af því að nú fer að styttast tíminn sem ég á eftir, að það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að móta til framtíðar utanríkisstefnu sem byggir á aukinni víðsýni, sem byggir á því að við Íslendingar horfum til þeirra hagkerfa þar sem eftirspurn mun vaxa, þar sem kaupmáttur mun vaxa og þar sem hagvöxtur mun aukast. Það er mjög mikilvægt að utanríkismálin öll verði tekin til endurskoðunar og mótuð utanríkisstefna sem byggir á þeirri framtíðarsýn. Það hefur ekki gerst í tíð núverandi ríkisstjórnar vegna þess (Forseti hringir.) að þar er horft til mjög þröngra sérhagsmuna eins stjórnmálaflokks.