141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[21:01]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður ræddi talsvert um hvort verið væri að hægja á aðildarferlinu að Evrópusambandinu eða ekki og þá hvernig og hvað það þýddi.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvernig hann meti þá stöðu. Það hefur hvergi komið fram að verið sé að draga úr vinnu við aðildarumsóknina eða aðildarferlið. Það hefur hvergi komið fram að verið sé að afturkalla eitthvað af þeirri undirbúningsvinnu sem hefur verið lofað að fara í varðandi þá kafla sem afgreiddir eru. Ég hef meira að segja upplýsingar um að eftir að búið var að gefa út yfirlýsingu um að hægja ætti á viðræðum um landbúnaðarkaflann eru samt að koma sérfræðingar hingað frá Evrópusambandinu til að halda fundi og fara í undirbúningsvinnu með ráðuneytinu og hinum ýmsu stofnunum landbúnaðarráðuneytisins til þess einmitt að aðlaga íslenska stofnanakerfið að Evrópusambandinu. Það var eftir að sú yfirlýsing var gefin út. Reyndar hef ég líka heimildir fyrir því að ekki væri talið praktískt að láta þá heimsækja Bændasamtökin eða að Bændasamtökin væru með í undirbúningsvinnunni, en engu að síður hafi þetta farið fram.

Það er verið að halda stóra fundi úti um land, það er farin hringferð í kringum landið með mikinn áróður fyrir Evrópusambandinu og hinar góðu hliðar í aðildarferlinu og aðlöguninni raktar og hversu vel það gangi, eins og það hefur verið rómað. Það er meira að segja boðið upp á lokaðan einkafund með sendiherranum, með forustumönnum (Forseti hringir.) íslensks landbúnaðar, þannig að það er allt í gangi. Ég spyr því hv. þingmann: (Forseti hringir.) Hvað sýndarmennska er þetta eiginlega, að þykjast vera að hægja á viðræðunum?