141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[21:05]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sem hv. þingmaður var að koma inn á sé afar mikilvægt, að bæði ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt áherslu á að það sé engin breyting í aðlögunar- og umsóknarferlinu og það sé allt á þeirri ferð sem um var talað og ekkert hik í þeim efnum, enda er flokkurinn sjálfum sér samkvæmur og hæstv. utanríkisráðherra vill eindregið ganga eins hratt og hann getur í sambandið.

Þessi yfirlýsing ber einmitt keim af einum blekkingarleiknum enn. Mér er kunnugt um að drög liggi fyrir um samningsafstöðu í landbúnaðarmálum. Meðan ég var í utanríkismálanefnd höfðum við kallað eftir því að þau drög kæmu í nefndina og við fengjum að ræða þau því að við vissum að það var þá þegar ágreiningur um drögin. En áfram virðist vera unnið í ráðuneytinu á grundvelli þeirra og grundvelli krafna Evrópusambandsins um breytingar á stofnanaumgjörðinni. Ég verð því að segja að mér finnst málið vera í hættulegri farvegi en áður var, verið er að gera sýndarhlé og reyna að slá ryki í augu fólks en allt gengur á fullri ferð.

Ef það hefði verið raunverulegur vilji til að gera hlé, og raunverulegt hlé, stöðva málið og fara í endurskoðun þess hefði sú tillaga sem naut meiri hluta í utanríkismálanefnd þegar ég sat þar komið til þingsins, hún hefði fengið að koma fram. Þá hefðu menn þorað að láta hana koma fram. En kjarkurinn var nú ekki meiri en svo að það var ekki talið þorandi að hún kæmi í þingið (Forseti hringir.) og þá skil ég ekki hvers konar sýndarmennska það er að vera að gefa einhverja svona loðmulluyfirlýsingu um að (Forseti hringir.) verið sé að hægja á ferðinni þegar menn þora ekki að ganga hreint til verks.