141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[21:19]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög alvarlegt ef utanríkisráðherra fer með rangt mál þegar kemur að hagsmunum Íslands. Á sínum tíma samþykkti Alþingi að verjast innflutningi á hráu kjöti með þessum hætti og þá fer maður auðvitað að velta fyrir sér hvort hæstv. utanríkisráðherra sé, enn á ný, ekki að gæta þjóðarhagsmuna. Við höfum áður séð að ráðherrar hafa farið með rangt mál einmitt þegar kemur að Evrópusambandsmálum. Það gerðist ítrekað í Icesave-málinu og maður hlýtur líka að velta því fyrir sér hvort atvinnuvegaráðherra sé ekki kunnugt um að ríkisstjórnin fari hér með rangt mál. Það er náttúrlega mjög alvarlegt. Atvinnuvegaráðherra sem hefur meðal annars þessi mál á sinni könnu hlýtur að gera athugasemdir við það ef hæstv. utanríkisráðherra segir beinlínis ósatt í skýrslu sinni. Það er mjög alvarlegt og hlýtur að hafa einhverja eftirmála í för með sér.

Það sem mig langaði að velta upp við hv. þingmann er hvort hann meti það svo, í ljósi þess sem þarna er ritað, að það sé kannski fullur pólitískur vilji ríkisstjórnarinnar fyrir því að ganga þvert gegn því sem samþykkt var að verjast, að verja innlendan landbúnað fyrir innflutningi á hráu kjöti. Er það kannski orðin stefna ríkisstjórnarinnar að feta þá braut? Er það kannski orðin stefna hæstv. atvinnuvegaráðherra að fylgja því og ganga þá braut að gefa eftir þessi grundvallarmál? Telur hv. þingmaður að það sé orðin stefna ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) að gefa eftir grundvallarmál og segja síðan ósatt í skýrslu utanríkisráðherra?