141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[21:39]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég ber mikla virðingu fyrir trú og væntingum hæstv. ráðherra og þegar ég hlusta á hann býst ég jafnvel við að hann trúi því sjálfur að sérlausnir geti staðið af sér ákvarðanir Evrópuþingsins að öðru leyti. En það er ekki svo. Þetta er mikil blekking. Við verðum, áður en við byrjum að undirgangast skilyrði Lissabon-samningsins, að uppfylla og staðfesta Kaupmannahafnarviðmiðin sem kveða öll á um að við viljum undirgangast lög og regluverk Evrópusambandsins. Sérlausnir sem slíkar verða alltaf háðar samþykktum eða breytingum sem Evrópusambandsþingið getur sjálft gert.

Við getum tekið það sem dæmi að nú síðast hefur verið rætt um það að Svíum, sem héldu að þeir gætu haldið sænsku krónunni og þyrftu ekki að taka upp evru, hafi verið gerð grein fyrir því að ef einhver hæstiréttur í Brussel ákvæði að Svíar yrðu að taka upp evru þá yrðu þeir að gera það. Þrátt fyrir mikla óskhyggju hjá hæstv. utanríkisráðherra, og nærri því barnslega að mínu mati, þá er veruleikinn annar.

Samningaferlið sem slíkt, það hefur meira að segja verið undirstrikað af fulltrúum Evrópusambandsins sjálfs að samningaferlið er ekki samningar sem slíkir; (Gripið fram í.) heldur sækjum við um aðild á forsendum Evrópusambandsins. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá er það staðreyndin. Evrópusambandið ræður ferð. Mér finnst dapurt að þurfa að hryggja hæstv. utanríkisráðherra með því að ég deili ekki barnatrú hans.