141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[21:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður á að fara sér hægt í að spá mér ótímabærum pólitískum aldurtila. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Þá í stjórnarandstöðu.) Ég er eins og kötturinn sem hefur níu líf, ég er búinn með 12, er hér enn og hef fulla trú á að ég standi hér áfram sem utanríkisráðherra bak kosningum. Það getur vel verið að ég verði í ríkisstjórn með hv. þingmanni, ég veit ekkert um það, mér er alveg sama um það og það mun eigi að síður fara vel á með okkur.

Hv. þingmaður er hræddur við sinn eigin málstað, hann trúir ekki á hann. Það birtist í því að hann vill ekki leyfa íslensku þjóðinni að greiða atkvæði um samning þegar hann er kominn fram, (ÁsmD: Ef …) þegar búið er að ganga frá honum. Hann óttast sinn eigin (Gripið fram í: … hluti af ESB. …) málstað. Hann þorir ekki að leyfa fólkinu að taka afstöðu til samnings.

Þá vil ég heldur fá framsóknarmennina í Bretlandi, menn eins og Clegg, aðstoðarforsætisráðherra Breta, sem er framsóknarmaður. Hann er þeirrar skoðunar að nú, þegar til stendur að Bretar kjósi um áframhaldandi aðild sína að Evrópusambandinu, verði það ekki gert fyrr en búið er að semja upp á nýtt. Hinn góði framsóknarmaður Breta, Clegg, segir með öðrum orðum: Samninginn upp á borðið og kjósum um hann.

Íslenski framsóknarmaðurinn, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, þorir hins vegar ekki að leyfa samningnum að koma fram. Allt hans pólitíska kapp í þessu máli snýst bara um eitt, að koma í veg fyrir að fólkið fái að kjósa, að taka af Íslendingum þann rétt sem Alþingi veitti fólkinu, að fá að taka afstöðu sjálft. Hann vill að skuggabaldrar skúmaskotanna og flokksklíknanna fái að ráða. Það vil ég ekki. (Gripið fram í.) Fólkið á að fá að ráða.

Munurinn á mér og hv. þingmanni (Gripið fram í.) er að ég er ekki hræddur við minn eigin málstað. Ég stend, eða fell eftir atvikum, með honum en hv. þingmaður vill ekki leyfa samningnum að koma fram og leyfa fólkinu að kjósa. (Forseti hringir.) Það er ekki lýðræðislegt.