141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær heillaóskir sem hæstv. forseti bar til kvenna og þjóðarinnar allrar. Það er vel til fundið úr því að ákveðið var að bæta við þessum þingfundardegi að minnast fyrstu konunnar sem settist á Alþingi með tilhlýðilegum hætti. Það er líka rétt að minnast þess að skammt er í það að 100 ár verði síðan konur fengu kosningarrétt. Það voru fleiri þjóðfélagshópar sem fengu þá kosningarrétt. Þeir sem ekki voru sjálfstæðir atvinnurekendur höfðu ekki kosningarrétt ef þeir borguðu ekki meira en 4 kr. í útsvar og þeir fengu jafnframt kosningarrétt á þeim tíma. Það er rétt að minnast þess líka.

Smátt og smátt hefur í störfum Alþingis allan þennan tíma jafnrétti og mannréttindi verið bætt. Ég held að allir séu sammála um það í þinginu að gera það sem þeir geta til að bæta lífskjör þjóðarinnar. Það hefur gengið býsna vel.

Núna á síðustu metrum þessa þings tek ég undir með hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni sem benti stjórnarliðum á að það er mjög skammur tími til stefnu. Það eru mörg stórmál sem enn eru ókláruð og svo virðist vera sem ýmsir hópar stjórnarliða, hugsanlega hæstv. ráðherrar, ætli að koma sínu máli í gegn en það verður auðvitað ekki gert nema menn átti sig á því hvað er hægt á þessum skamma tíma og hvað ekki. Yfirleitt er það þannig og hefur verið í gegnum sögu okkar lands að því sem við náum í gegn náum við í gegn með sátt og samlyndi þar sem breiður hópur stendur á bak við þær breytingar. Við erum held ég ekki mjög mikið fyrir byltingar enda horfum við gjarnan til annarra Norðurlandaþjóða, til lífsmynsturs þar og lífskjara sem við viljum að séu hér, lýðræði og annað í þeim dúr. Því vil ég nota þessar tvær sekúndur sem ég á eftir til að hvetja stjórnarliða sem er kannski til marks um það (Forseti hringir.) hversu skammur tími er: Það er nú eða aldrei ef menn ætla að ná saman um að ljúka hér störfum og koma málum fram sem horfa til heilla fyrir þjóðina.