141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í ræðum hér á undan eru í dag 90 ár frá því að fyrsta konan settist á þing. Ingibjörg H. Bjarnason settist á þing fyrir sérstakan kvennalista þann 15. febrúar árið 1923. Konur komust á þing á eftir henni alveg þar til sérstakt kvennaframboð bauð fram til alþingiskosninga að nýju. Eftir það hefur konum fjölgað á þingi og stjórnmálaflokkar áttað sig á því að vilji þeir atkvæði kvenna þurfi þeir að skapa þeim verðugan sess á framboðslistum. Samfylkingin býður fram fléttu- eða paralista þannig að áreiðanlegt er að í fjórum efstu sætunum verða tveir karlar og tvær konur og kona og karl í þeim tveimur efstu. Þetta fyrirkomulag ætlumst við til að tryggi framgang beggja kynja.

Ingibjörg H. Bjarnason barðist ávallt fyrir réttindum kvenna. Hún var ein 12 kvenna sem sömdu frumvarp sem flutt var á Alþingi árið 1915 um þörfina fyrir byggingu landspítala og var formaður Landspítalasjóðs Íslands. Nú um 100 árum síðar er kallað eftir nýjum landspítala sem mun leysa af hólmi byggingar sem eru á mörgum stöðum í borginni.

Sagt er að aðeins með góðum fyrirmyndum verði varanlegar breytingar mögulegar. Stúlkur og drengir þurfa góðar fyrirmyndir til að sjá sjálf sig í hvaða störfum sem er og finnast það sjálfsagt. Íslenskar stúlkur hafa átt einstaka fyrirmynd í frú Vigdísi Finnbogadóttur. Það skiptir máli þegar múrar eru brotnir, svo sem þegar kona varð forsætisráðherra og önnur biskup. Það er mikilsvert að stjórnvöld stígi skref til að festa í sessi jafnræði með kynjum eins og með því að tryggja jafnan fjölda karla og kvenna við ríkisstjórnarborðið eins og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er skipuð nú.

Virðulegur forseti. Okkur miðar áfram í jafnréttisbaráttunni en við erum ekki komin alla leið og við skulum því halda áfram að skapa börnum góðar fyrirmyndir og kenna þeim að það er réttlátt að jafnræði með kynjunum ríki á öllum sviðum.