141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir óska okkur öllum til hamingju með daginn. Að sjálfsögðu er þetta merkisdagur og merkisáfangi í jafnréttissögu landsins og sögu okkar allra í rauninni því að það er alveg ljóst að karlmenn líkt og konur fagna því þegar jafnréttið vex og hluturinn jafnast sem mest. Þar af leiðandi er vel við hæfi að minnast brautryðjanda eins og Ingibjargar sem við gerum í dag.

Mig langar að nefna annað mál sem ég kom inn á í gær eða fyrradag. Það eru fyrirhuguð kaup Framtakssjóðs Íslands, sem við þekkjum ágætlega, á Íslandsbanka. Mig langar bara að benda á að einn af eigendum Framtakssjóðs er Landsbanki Íslands sem er í eigu ríkisins. Landsbankinn á um það bil 28%, ef ég man rétt, í Framtakssjóðnum og við hljótum því að velta fyrir okkur hvort það samræmist stefnu ríkisins að taka þátt í slíkum kaupum verði þau að veruleika og einnig hvaða áhrif þau kunni að hafa.

Mig langar líka að nota tækifærið og benda á það, eins og fram hefur komið, að í þinginu eru nokkur mál sem varða heimilin beint, stöðu þeirra, svo dæmi sé tekið snerta þau beislun verðtryggingarinnar eða tilraunir til þess, og vil ég endilega hvetja til þess að við reynum á þessum lokadögum í þinginu sem eru ekki mjög margir að horfa til slíkra mála, t.d. á það mál sem framsóknarmenn lögðu til og er í þingnefnd og varðar þak á verðtryggingu, takmörkun á eignum banka og á verðtryggðum bréfum, takmarkanir opinberra aðila á því að velta hækkunum út í verðlag o.s.frv. Þetta er mál sem ég held að sé mjög mikilvægt að við reynum að klára á þessum síðustu dögum til að við getum sent þau skilaboð að heimilin og atvinnulífið skipti okkur einna mestu í dag.