141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi í þessari umræðu vekja athygli á því, af því að hér erum við að ræða störf þingsins, að í dag er ákveðið að hafa sérstakan aukadag í þinginu til að ræða stjórnarskrármálið. Það er hins vegar, eins og öllum þingmönnum er ljóst, í fullkomnu uppnámi. Ég vil beina því til hæstv. forseta að taka þá ákvörðun til endurskoðunar í ljósi þess að við vitum ekki í raun og veru hvar við erum stödd í málinu. 2. umr. er í miðju kafi. Fyrr í vikunni kom álit Feneyjanefndar sem meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafði sérstaklega óskað eftir. Við heyrum í fjölmiðlum að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ætlar að fela lögfræðingahópi að fara yfir álit Feneyjanefndarinnar. Við vitum ekki hvenær niðurstaða birtist í því, við vitum ekki að hvaða leyti meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætlar að fara eftir áliti Feneyjanefndar. Ég vil því, hæstv. forseti, vekja athygli á að umræðan sem á að fara fram í dag er í raun fullkomlega ótímabær vegna þess að við vitum ekki, enginn í þessum sal, á hvaða stað við erum í umræðunni.