141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og fleiri þingmenn taka undir gleði dagsins í dag vegna þess að 90 ár eru síðan fyrsta konan settist á Alþingi. Rétt er að minnast á að virðulegur forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, boðaði allar konur sem hafa tekið sæti á Alþingi í Alþingishúsið í sumar. Það var mjög myndarlegt og vel til fundið og ber að þakka fyrir það. Dagurinn í dag er merkisdagur, það eru 90 ár liðin síðan þessi merkisatburður gerðist. Kvenréttindabaráttan hefur verið tekin eitt skref í einu og mikið verk er óunnið enn.

Erindi mitt hingað upp lýtur fyrst og fremst að því að ég hef áhyggjur sem Reykvíkingur vegna þeirra tíðinda sem berast af Orkuveitu Reykjavíkur því að eins og allir vita er Orkuveita Reykjavíkur að miklum meiri hluta eign Reykjavíkurbúa. Nú berast þær fréttir að selja eigi hús Orkuveitunnar fyrir rúma 5 milljarða og búið er að leggja fram kauptilboð frá Straumi fjárfestingabanka sem leggur fram tilboð fyrir hönd óstofnaðs samlagshlutafélags. Svo ætla lífeyrissjóðirnir að koma að kaupunum líka. Við vitum að lífeyrissjóðirnir gera háar fjárfestingarkröfur. Merkilegasti atburðurinn er nú samt sá að Orkuveita Reykjavíkur lítur á þetta sem lán til Orkuveitunnar og að þetta hafi raunverulega verið hagstæðasta lánið sem var í boði vegna þess að Orkuveitan hefur kauprétt að húsinu eftir 20 ár. Ég skal taka fram að þetta er kaupréttur en ekki kaupskylda, en samningurinn hljóðar samt upp á að Orkuveita Reykjavíkur leigi húsið af þeim aðilum sem eru „kaupa“ upp á 330 millj. kr. á ári.

Virðulegi forseti. Maður veltir fyrir sér hvað sé hagstæðast; kaup eða leiga eða sala.