141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Miðað við það sem kom fram hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur mætti halda að litla og stóra Samfylkingin hefði farið til Grikklands til að læra hvernig á að færa bókhald, þetta ber auðvitað svolítið þess merki.

Ég kom hingað áðan og talaði um skuldamál heimilanna og verðtrygginguna og vil taka undir með þeim sem hér töluðu eins og hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Vigdísi Hauksdóttur og fleirum um að þingið sé í svolitlu uppnámi. Það liggur eiginlega ekki ljóst fyrir hvað menn ætla sér og skilaboðin frá stjórnarliðum eru misvísandi um hvaða mál skuli leggja áherslu á. Ég talaði áðan um að mikilvægt væri, núna á síðustu dögum þingsins, að við tækjum fyrir skuldamál heimilanna og verðtrygginguna. En annað mál er gríðarlega mikilvægt og það er að við komum núna á síðustu dögum þingsins jákvæðum skilaboðum út í atvinnulífið. Staðreyndin er sú að hagvaxtarspár eru ekki eins og menn vonuðust til og full ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af umgjörð atvinnulífsins.

Ég rifjaði það upp fyrir áramótin þegar verið var að fjalla um skattabandorm að Íslandi hefur hrakað mjög í samanburði við önnur ríki þegar kemur að umgjörð um atvinnulífið og skattumgjörð fyrirtækja. Þetta má sjá í nýlega útkominni skýrslu, The Global Competitiveness Report, þar sem borin eru saman 144 lönd. Ísland hefur fallið gríðarlega á þeim lista og er í dag í 119. sæti þegar kemur að skattumgjörð fyrirtækja og hversu mikið hún hvetur til nýfjárfestinga í atvinnulífinu.

Það alvarlegasta við þetta er að Íslandi hefur verið að hraka mjög hratt síðustu tvö til þrjú ár. Árið 2010 var Ísland í 37. sæti en er nú komið niður í 119. sæti. Í þessari skýrslu kemur fram að innviðir samfélagsins eru mjög sterkir, menntakerfið, nýsköpun og fleira. En við hér á þingi hljótum að geta sett okkur það markmið núna að koma jákvæðum skilaboðum út í atvinnulífið þannig að á næsta ári geti Ísland hugsanlega farið upp fyrir ríki eins og Kólumbíu, Ekvador, Venesúela, Simbabve, Níkaragva, Moldavíu (Forseti hringir.) Kenía og fleiri slík ríki, með fullri virðingu fyrir þeim. Við eigum að setja markið hærra þegar kemur að umgjörð um atvinnulífið en er í þessum löndum.