141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að taka undir orð hv. þm. Birgis Ármannssonar hér áðan um stöðu stjórnarskrármálsins svokallaða, en mig langar að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson skildi við hann þegar þingmaðurinn benti á álit Fitch Ratings, sem er eitt af þeim fyrirtækjum sem meta lánshæfi Íslands. Það er vitanlega ánægjulegt að sjá að við erum að potast upp. Það er hins vegar mikilvægt að við hugum að þeim varnaðarorðum sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson kom réttilega að í ræðu sinni og koma fram í þessu áliti, að allt of hægt gangi að endurskipuleggja skuldir heimila og fyrirtækja. Það er eitt af því sem er einna mikilvægast að við gerum á næstunni til þess að koma hjólum efnahagslífsins aftur af stað. Heimilin og fyrirtækin, kannski ekki síst heimilin, skipa svo stóran sess í öllu efnahagsumhverfi landsins.

Mig langar líka af þessu tilefni að benda á að menn voru búnir að spá því margir hverjir í þessum sal að ef Icesave-málið mundi fara á þann veg sem það fór mundi allt fara á hvolf á Íslandi. Þá mundi lánshæfismatið lækka, þá yrðum við Kúba norðursins, hér yrði frostavetur í fjárfestingum og landið mundi einangrast o.s.frv. Þetta voru spár þeirra sem báru ábyrgð á stjórn landsins sérstaklega, þetta voru spár margra þingmanna í þessum sal.

Hvað gerist? Við tökum sem betur fer þá skynsamlegu ákvörðun að fella það að taka á okkur skuldir einkabanka sem stjórnarflokkarnir sérstaklega og reyndar fleiri vildu leggja á okkur um tíma. Þessir ágætu einstaklingar þurfa að svara því hvernig stendur á því að hér varð ekki frostavetur, að Ísland breyttist ekki í Kúbu norðursins, að hér fór ekki allt til fjandans eins og þeir höfðu spáð.

Frú forseti. Við megum ekki gleyma því þegar hlutirnir fara á betri á veg eins og hér er bent á varðandi (Forseti hringir.) hækkandi lánshæfismat, að það voru aðilar sem spáðu öðru.