141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

störf þingsins.

[11:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Breytingar á lánshæfismati til batnaðar skipta okkur Íslendinga ákaflega miklu máli og við eigum öll saman að gleðjast vegna þess. (Gripið fram í: Gerðum það.) Ástæðan fyrir því að lánshæfismatið batnar er einfaldlega sú að ástandið á Íslandi hefur batnað, efnahagsástandið hefur batnað. Nú erum við komin nær því að átta okkur á því hver skuldar hvað í þessu landi eftir algjört efnahagshrun og stórkostleg hagstjórnarmistök sem hér áttu sér stað.

Lausn Icesave-deilunnar skýrir auðvitað þessa mynd og við höfum alltaf sagt að samningar um Icesave skiptu ekki síst máli vegna þess að þá væri ljóst hver staðan væri. Hún er ljós núna og það er partur af lausninni. Það skiptir okkur miklu máli að lánshæfismatið batni og að íslenska ríkið og stór íslensk fyrirtæki fái ódýrari lán. Það er augljóst þegar við horfum á þá milljarða sem við skuldum, íslenska þjóðin, að hvert vaxtastig skiptir okkur stórkostlegu máli. Batnandi lánshæfismat hjálpar okkur til að komast á þann stað þannig að við erum á réttri leið. Við getum litið stolt um öxl og sagt: Við erum búin að koma okkur upp úr algjöru efnahagshruni, forðað okkur frá því að verða gjaldþrota. Ástand fer batnandi og vöxtur er stöðugur þó að hann sé vissulega ekki jafnmikill og við vildum hafa hann og að því þurfum við að vinna öll saman.