141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:53]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar orð mín um stjórnarskrárbreytingarnar í Frakklandi 1940. Ástæðan fyrir því að ég tiltók þetta var tvennt, annars vegar þá orðræðu sem þar fór fram, sem var áhugaverð fyrir okkur og rétt að gefa gaum að, en ekki síður auðvitað að það er ekkert hægt að horfa fram hjá því — ég vísa til dæmis til skrifa Njarðar P. Njarðvík, rithöfundar og fleiri, sem voru þeirrar skoðunar að efnahagshrunið hefði kallað fram nauðsyn þess að stjórnarskránni yrði breytt. Ég er ekki sammála því. Ég tel að þetta efnahagshrun hafi ekki orðið vegna galla í okkar stjórnarskrá, það hafi verið aðrir hlutir sem brugðust hjá okkur. Þess vegna hafi það verið óráð að fara að rjúka af stað með þessum hætti, við þær aðstæður sem voru í íslensku samfélagi árin eftir hrun, í algjöra endurskoðun á stjórnarskránni. Það var þess vegna sem ég taldi þetta fram og vil bara ítreka það og árétta að að sjálfsögðu legg ég ekki að jöfnu þær hörmungar sem franska þjóðin mátti þola sumarið 1940 og það efnahagshrun sem varð hér á haustdögum 2008.

Hvað varðar álit Feneyjanefndarinnar og hvernig stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mun fara með það mál þá verð ég bara að segja þetta: Nú erum við stödd í burðarumræðunni um þetta mál, í 2. umr. Ég er búinn að klára mína 40 mínútna ræðu, þar sem ég gat að meginstofni farið yfir ákveðnar greinar. Ég hefði kosið að þessi umræða hefði farið fram eftir að búið var að fá þetta álit og vinna úr því þannig að það lægi allt saman fyrir þegar við færum í þessa umræðu. Það skiptir verulegu máli að við séum með slík gögn í höndunum þegar við erum að ræða þetta. Auðvitað er þetta að hluta til komið inn í þingið, það má auðvitað segja það, við getum vitnað í þetta álit og rætt það, lesið það, en það er svo augljóst að töluvert mikil vinna er eftir innan vébanda stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til þess að finna þessu stað þannig að við getum séð hvernig á að bregðast við þessum athugasemdum og að við getum rætt það síðan hér í þingsalnum, og þá hefði ég helst talið í 2. umr. að minnsta kosti.