141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:57]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir yfirgripsmikla og langa ræðu hjá hv. þingmanni. Því miður er andsvaratíminn mjög skammur. Það eru tvö atriði sem mig langar til að fjalla um hér í ræðu þingmannsins. Annars vegar hugtakið þjóðareign og hins vegar hugtakið fullt gjald.

Ég hef lengri tíma núna þannig að ég ætla að byrja á fullu gjaldi. Ég vil vísa til þess sem segir á blaðsíðu 15 í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um það, þar sem sagt er að hún sé villandi og misvísandi sú skýring sem stjórnlagaráð hefur uppi með tillöguna um fullt gjald. Þess vegna þurfi það endurskoðunar við og nefndin boðar í raun þarna að það muni koma breyting á þessu fyrir 3. umr.

Hvað er fullt gjald? Stjórnlagaráð vísar til tvenns. Annars vegar til eignarnámsbóta þar sem verið er að bæta eignina alla. Þarna erum við hins vegar að tala um gjald fyrir afnot en í eignarréttinum felst auðvitað bæði ráðstöfunarrétturinn og nýtingarrétturinn. Þarna erum við bara að tala um nýtingarréttinn þannig að þetta er villandi og bent er á það hér. Hins vegar er það þetta með markaðsverðið sem menn hafa jafnvel gengið svo langt að túlka sem svo að það mætti aldrei vera annað verð fyrir nýtingu á auðlind en það sem fæst á uppboði.

Mig langar að vekja athygli þingmannsins á því að ef við lesum síðustu málsgreinina um fullt gjald og vísum í skýringum til 3. málsgreinarinnar, ef við segðum bara „gjald“, ef við segðum „eðlilegt gjald“, ef við segðum „sanngjarnt gjald“ í samræmi við 3. málsgreinina, þ.e. þar sem hafa skal sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi, þá værum við komin með allt aðra hugsun inn í þetta hugtak gjald. Og bara eitt orð (Forseti hringir.) varðandi almannahag, það er ekki eins og það komi hvergi fyrir í íslenskum lögum, ég minni á (Forseti hringir.) nýleg lög um rannsóknarnefndir Alþingis.