141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér yfirgripsmikið mál, eins og sést á þeim bunka sem ég tók með mér. Þetta er þó bara hluti af þeim gögnum sem fylgja þessu máli orðið. Í upphafi máls míns ætla ég aðeins að koma inn á þær forsendur sem eru fyrir því að málið er hér inni, hvernig það er til komið og hver er tilgangur þess. Svo ætla ég að reyna að fara í þær greinar sem beint var til atvinnuveganefndar og ef tími vinnst til ætla ég að fara í einhverja kafla til viðbótar. Að lokum mun ég fjalla um ályktanir okkar framsóknarmanna og það sem við sjáum fyrir okkur í málinu.

Varðandi forsendurnar verður að segjast eins og er að um langt skeið höfum við framsóknarmenn talað fyrir því að rétt sé að endurskoða stjórnarskrána og nauðsynlegt að koma til að mynda ákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareign þar inn. Við höfum barist fyrir því í langan tíma. Við vorum með það á stefnuskrá okkar fyrir fjórum árum að sett yrði á laggirnar stjórnlagaþing, bindandi stjórnlagaþing, sem færi yfir málið. Við gerðum okkur grein fyrir því að í kjölfar hrunsins væru auðvitað ekki til miklir fjármunir til þess og að það mundi kosta mikla fjármuni, en við töldum að þau rök að lýðræðið kosti peninga stæði undir þeirri afstöðu.

Mér er orðið það ljóst í dag eftir þessi fjögur ár og ekki síst í kjölfar álits Feneyjanefndarinnar að sá tími sem við völdum til þess að setja á laggirnar slíkt stjórnlagaþing var ekki réttur, þ.e. ef það hefði verið gert strax árið 2009. Ég tek undir þær skoðanir sem fram koma í áliti Feneyjanefndarinnar að það sé varhugavert að fara af stað með miklar breytingar á stjórnarskrá í kjölfar slíkra umbyltinga á þjóðlífinu, hvort sem er vegna bankahruns, fjármálahruns eða einhverra annarra átaka eins og kom t.d. fram í máli hv. þm. Illuga Gunnarssonar. Þar vísaði hann til frönsku byltingarinnar og ástandsins í heiminum í kringum seinni heimsstyrjöldina.

Án þess að ég ætli að líkja því saman er það skoðun mín í dag að skynsamlegra sé að setjast yfir slíkt mál í rólegra umhverfi, ellegar sé hættan sú að þær breytingar sem menn vilja gera séu of miðaðar við það ástand sem ríkt hefur í kjölfar hrunsins og menn reyni jafnvel að koma álitaefnum inn í stjórnarskrá sem fjalla um átakamál líðandi stundar frekar en að horfa til lengri tíma. Ég er sannfærður um að skynsamlegra sé að horfa til framtíðar.

Ég vil líka tala um þær forsendur sem ég veit að sumir sem vilja keyra þetta mál mjög hratt áfram halda fram. Til að mynda hafa þingmenn Hreyfingarinnar krafist þess að hér séu haldnir langir þingfundir daga og nætur, föstudaga og laugardaga. Það er nú sérstakt, herra forseti, að í þessari viku hafa þeir þingmenn komið hér margoft í ræðustól og hvatt til þess, en ekki hefur sést tangur eða tetur af þeim á þessum viðbótarfundardegi þar sem þó er eingöngu fjallað um stjórnarskrána.

Ég veit að sumir hafa þá skoðun að búsáhaldabyltingin hafi krafist þess að sett yrði ný stjórnarskrá vegna þess að hin hafi verið ástæða þess að hér varð hrun. Okkur hefur lærst að sú stjórnarskrá sem við höfum í dag var grundvöllur þess að sett voru neyðarlög sem tryggðu að hér er enn efnahagslegt sjálfstæði. Auðvitað hefði þurft að setja lög til viðbótar sem tekið hefðu á skuldahliðinni í stað þess að tryggja aðeins eignir og innstæður í bönkum eins og neyðarlögin gerðu. Það er miklu frekar það ákall sem komið hefur frá þjóðinni, þ.e. hvað gera þurfi í þjóðlífinu og á þingi. Ég held að vonbrigðin séu gríðarleg, að ekki sé búið að gera meira en raun ber vitni eftir þessi fjögur ár, m.a. að leiðrétta skuldastöðu fólks. Sumir segja að ekkert hafi verið gert.

Það er líka sérkennilegt að velta því fyrir sér að þeir sem gera vilja breytingar á stjórnarskrá, og eru þá sammála okkur framsóknarmönnum um að nauðsynlegt sé að setja auðlindaákvæði, náttúruauðlindaákvæði í stjórnarskrá, hafa bundið það mjög við fiskveiðistjórnarkerfið en ekki horft á allar auðlindirnar, jafnvel ekki nýjar auðlindir. Í aðdraganda þessara breytinga held ég að hugmyndir manna um málið einkennist af þessu tvennu; að rangt sé að fara í miklar breytingar á stjórnarskrá, sérstaklega í kjölfar hruns samfélags — nema menn séu sannfærðir um að stjórnarskráin hafi valdið því, en ég held að svo sé ekki, ég held að það sé rangt — og því að keyra málið fram með því offorsi sem gert hefur verið. Ég kem betur inn á það á eftir.

Stjórnarskráin sem við búum við tryggði líka að hér var hægt að koma á lýðræðislegri stjórn fyrst eftir hrunið og lýðræðislegum kosningum. Þó að sá sem hér stendur sé ósáttur við niðurstöðu kosninganna 2009 og hefði viljað sjá öðruvísi stjórnarmynstur var það einfaldlega hin lýðræðislega niðurstaða sem byggðist á stjórnarskránni. Ég held að það sé í það minnsta mjög rangt af þeim sem fengu meiri hluta að umbylta stjórnarskránni vegna þess að hrunið var ekki henni að kenna, hún tryggði að hér var hægt að taka á málum með eðlilegum og lýðræðislegum hætti. Síðan getur þjóðin kveðið upp dóm sinn á fjögurra ára fresti hið minnsta um þau stjórnvöld sem starfa á hverjum tíma, hún getur metið hvort stjórnvöld hafa staðið sig vel eða illa.

Ég held að sú áhersla sem núverandi stjórnvöld hafa lagt á að keyra málið í gegn, oft og tíðum þvert á þá skynsamlegu afstöðu að reyna að ná breiðari sátt í málinu, að taka tillit til fleiri þátta, sé orsök þess hvar málið er statt núna.

Ég held til að mynda að fólkið í landinu hefði miklu meiri skilning á því og kannski var hin undirliggjandi krafa um breytingar sú að við færum í að breyta lögum byggða núgildandi stjórnarskrá sem gert hafa Íslendingum hvað erfiðast að komast af síðastliðin fjögur ár, til að mynda að taka á málum er varðar verðtryggingu og skuldamál heimila. Það er þá tækifæri núna úr því að ekki hefur verið tekið á því fyrr á þessu kjörtímabili að við værum hér á síðustu dögum þingsins að taka á slíkum málum. Eða að taka á einhverjum málum er snerta atvinnumálin sem hafa vissulega ekkert með stjórnarskrána að gera.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég sé það ekki fyrir mér, þó svo að við værum sammála þeim sem harðast tala fyrir breyttri stjórnarskrá og því frumvarpi sem hér liggur fyrir, að það væri eitthvað auðveldara að taka á þeim málum sem brenna hvað mest á þjóðinni, þ.e. skuldamálin og atvinnumálin, á grundvelli nýrrar stjórnarskrár. Ég sé það ekki.

Ég ætla að tala aðeins um álit Feneyjanefndarinnar. Það litla sem ég hef kynnt mér þar samræmist í mjög mörgu þeirri skoðun sem ég hef myndað mér og við framsóknarmenn höfum talað fyrir, að nauðsynlegt sé að breyta stjórnarskrá í víðtækri sátt.

Ég sagt fyrr í ræðum mínum varðandi málið að það dæmi sem við sáum við lýðveldisstofnunina sé auðvitað mjög góð fyrirmynd að því hvert við eigum að stefna, þótt ég geri mér alveg grein fyrir því að auðvitað verði ekki hægt að ná upp slíkri stemningu í kringum stjórnarskrá að nær allir mæti á kjörstað og að 95% þjóðarinnar styðji slíka stjórnarskrá.

Ef menn hefðu það að leiðarljósi að reyna að ná sem breiðastri sátt, að ná til sem breiðasts hóps í samfélaginu öllu, er það stjórnarskrá sem fólk mundi gera að sinni en ekki upplifa að verið væri að troða lágmarksmeirihlutastjórnarskrá upp á sig. Það hefur mér fundist vera gegnumgangandi í vinnubrögðunum alveg frá því að málið fór af stað.

Við getum bent á siðareglur sem við höfum talað mikið um að nauðsynlegt sé að setja öllum. Við þingmenn erum með slíkt mál í vinnslu eftir að við samþykktum það 63:0 að setja okkur siðareglur. Hvernig setja menn sér siðareglur? Þær koma ekki ofan frá og eru samþykktar með naumum meiri hluta eða einum yfirmanni heldur kemur sá hópur saman og setur sér siðareglur sem allir geta gert að sínum og fara eftir þeim. Þetta er auðvitað ekki nákvæmlega sambærilegt en hugmyndin engu að síður sú sama, að sem breiðastur hópur geri reglurnar, grundvallarreglur samfélagsins, að sínum og sé sáttur við þær.

Það er reyndar alveg til fyrirmyndar hvernig meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur komið því máli fyrir, að senda málið til allra nefnda. Ég held að það hafi gert málinu mjög gott að allir þingmenn í ólíkum nefndum hafi fjallað um tilteknar greinar sem heyrðu undir viðkomandi nefnd og settu sig inn í þá kafla. Ég held að það hafi dýpkað skilninginn og vonandi umræðuna í þinginu. Ég held að ég megi fullyrða að það hafi hjálpað til.

Í upphafi hafði ég þó einhverjar efasemdir. Við 1. umr. og reyndar í fyrri umræðum um málið hef ég verið efins um að hlustað verði á athugasemdir við málið. Í byrjun desember var settur stuttur frestur til að afgreiða málið og síðan áframhaldandi af þeirri vinnu fannst mér að það væri endilega ekki ætlun meiri hlutans að hlusta á athugasemdir, heldur væri aðalatriðið að fá fram athugasemdirnar og segja: Við erum búin að fá fram athugasemdir. Við höfum brugðist við þeim. Þetta er misskilningur hjá viðkomandi.

Þannig hefur nú orðræðan verið í garð þeirra sem gert hafa athugasemdir, nú síðast varðandi Feneyjanefndina.

Ef ég sný mér að greinum frumvarpsins má til að mynda nefna 13. gr. sem samsvarar 72. gr. núgildandi stjórnarskrár. Hún fjallar um eignarréttinn, að hann sé friðhelgur, að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji og þurfi til þess lagafyrirmæli og komi með fullt verð fyrir. Það er tillaga.

Í núgildandi 72. gr. er að finna ákvæði sem segir að með lögum megi takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi. Það verður að segjast eins og er, til þess að fara hratt yfir sögu og eins að þakka meiri hlutanum fyrir að hafa tekið tillit til athugasemda, að það fannst varla sá sérfræðingur sem kom fyrir nefndina sem ekki tók undir það að sú grein í núgildandi stjórnarskrá yrði að vera í frumvarpinu og menn undruðust satt best að segja af hverju hún var tekin út í tillögunum.

Ég spurði stjórnlagaráðsmennina sem komu fyrir atvinnuveganefnd út í það. Í ljós kom að hugsunin á bak við það var lítil, aðeins var bent á einhverja jafnræðisreglu sem hefði í þessu tilviki haft mjög sérkennilegar afleiðingar. Það mætti skilja það sem svo að hin algilda jafnræðisregla gilti þannig að í sjálfu sér væri óheimilt að setja það inn í lög, við yrðum hreinlega að breyta lögum í þá átt.

Ég ætla að vitna til ágætrar greinargerðar Arnórs Snæbjörnssonar sem fjallaði um málið þar sem hann benti á að þetta gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar. Til að gera langa sögu stutta er meiri hlutinn sem sagt búinn að gera þessar athugasemdir að sínum og taka þá grein upp.

Einnig var fjallað svolítið um skyldur. Sérfræðingahópurinn hafði tekið það út úr tillögum stjórnlagaráðs að eignarréttinum fylgdu skyldur. Það var talsvert rætt við sérfræðingana. Margir þeirra héldu því fram að það lægi í hinu óskrifaða að því fylgdu skyldur og sögðu að það mundi vekja spurningar að setja slíkt í stjórnarskrá, t.d. að einhver sem ætti íbúð eða íbúðarhús væri skyldugur til að viðhalda henni. Sérfræðingarnir veltu fyrir sér hvaða merkingu það hefði. Mér fannst það vera rökrétt á margan hátt. Ég var svolítið skotinn í þeirri hugmynd þar sem mér finnst almennt séð mjög mikilvægt að við hefðum ekki bara réttindi heldur líka skyldur. En ég áttaði mig á því að það að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrá gæti haft eitthvað í för með sér sem við höfum ekki gert okkur nægilega vel grein fyrir. Ég mundi því gjarnan vilja að það yrði skoðað aftur af því að sú tillaga um að taka þetta skylduákvæði upp er komin inn í breytingartillögur meiri hlutans, eins og stendur í greininni, með leyfi forseta:

„Eignarrétti fylgja skyldur, svo og takmarkanir í samræmi við lög.“

Kannski dugar það, ég skal ekki segja.

Varðandi síðan 25. gr., um atvinnufrelsi, er hún samsvarandi 75. gr. gildandi stjórnarskrár. Í tillögu frá stjórnlagaráðinu var búið að setja inn nokkur gildishlaðin hugtök, eins og til að mynda, með leyfi forseta:

„Í lögum skal kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, svo sem hvíldar, orlofs og frítíma.“

Síðan var sagt:

„Öllum skal tryggður réttur til sanngjarnra launa og til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu.“

Ég held að fullyrða megi að nánast allir sérfræðingarnir, ekki þó jafnmargir og tjáðu sig um 13. gr., töldu að þessi hugtök, „mannsæmandi vinnuskilyrði“ og einkum „sanngjörn laun“ væru þess eðlis að þau gæfu tilefni til falskra væntinga og væru líkleg til að stofna til dómsmála sem ekki mundu leiða til neins. Ég sé að meiri hlutinn hefur samþykkt að fella út orðin „sanngjarnra launa“ en haldið inni „mannsæmandi vinnuskilyrðum“. Í staðinn hefur hann bætt við tveimur atriðum til, þ.e. „aðbúnaði“ og „öryggi“. Auðvitað erum við öll sammála um að vinnuskilyrði eigi að vera mannsæmandi. Spurningin er bara hvort nauðsynlegt sé að setja það inn í stjórnarskrá með þessum hætti, hvort við skiljum eitthvert atriði eftir og eins hvort við séum að skapa einhverja óvissu, einhverjar væntingar sem ekki er innstæða fyrir. Ég held að það sé alla vega til bóta sem komið er.

Þá kem ég að 34. gr. sem er ný, hún er ekki í núgildandi stjórnarskrá, og fjallar um náttúruauðlindir. Við framsóknarmenn höfum lagt ríka áherslu á það í langan tíma, sennilega í nokkra áratugi, að koma slíku ákvæði inn en það hefur því miður ekki gengið. Ég held að mikilvægt sé að við notum þetta tækifæri til að koma slíku ákvæði inn.

Það verður að segjast að talsverður hringlandaháttur er varðandi þetta ákvæði, herra forseti. Stjórnlagaráð kom með tillögu. Sérfræðingahópurinn sem fór yfir tillöguna breytti henni til þess að hún væri skiljanlegri hvað lagatúlkanir varðar og hefði skýrari merkingu. Í nefndaráliti meiri hlutans taka menn upp niðurstöðu stjórnlagaráðsins að einhverju leyti en breyta öðru. Í breytingartillögunum sem komnar eru fram eru tillögur sem ekki eru í nefndarálitinu. Ég held að það sé eitt besta dæmið um hversu erfitt er að ræða þetta mál, að það er einhvern veginn allt fljótandi. Málið virðist vera á því reki að erfitt er að fara í ræðustól og taka það til umræðu vegna þess að óljóst er hvað meiri hlutinn ætlar sér með því. Nefndarálitið segir eitt, breytingartillagan segir annað. Síðan er vísað til stjórnlagaráðs í því þriðja. Sérfræðingarnir sem breyttu því tóku langflestir undir það að breytingar sérfræðingahópsins hefðu verið til bóta, hefðu skýrt ákvæðið. Engu að síður var fullt af ákvæðum þar inni sem menn sögðu vera illskiljanleg og að ekki væri ljóst hvert farið væri. Reyndar vísuðu margir, þar á meðal umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson og áðurnefndur Arnór Snæbjörnsson, til þess að greinargerðin almennt með frumvarpinu, en sérstaklega um þessa grein, væri ekki nægilega skýr. Arnór Snæbjörnsson segir, með leyfi forseta:

„Heilt yfir litið má segja að ákvæði 4. mgr. 34. gr. frumvarpsins hafi óljóst efnisinntak. Skýringar við þau eru ófullkomnar og virðast að mestu leyti hugsaðar í tengslum við eina auðlind, þ.e. nytjastofna sjávar. Með þessu er líklegt að ákvæðin ýti undir ágreining og skapi óvissu.“

Í áliti Bjargar Thorarensen lagaprófessors, sem var mjög ítarlegt, segir um stjórnarskrárákvæði um náttúruauðlindir, með leyfi forseta:

„Það er ekki fallið til að skýra inntak og markmið ákvæðisins. Í raun er greinargerðin ónothæf sem lögskýringargagn til framtíðar …“

Ég held að ég hafi haft eitthvað sambærilegt eftir umboðsmanni Alþingis þar sem hann talaði um greinargerðina um þessa grein en einnig greinargerðina almennt. Varðandi þessa grein segir hann, með leyfi forseta:

„Greinargerðin er ekki nógu góð og gagnast illa eða ekki til að útskýra sem lagaskýringar.“

Umboðsmaður kom einnig inn á það í máli sínu að kannski ætti greinin að vera einfaldari og kveða á um að auðlindir væru í þjóðareigu og að ríkið færi með eignarhaldið og gæti sett lög þar um.

Það er skoðun mín eftir að hafa skoðað þetta mál ítarlega að nauðsynlegt sé að fara yfir þetta atriði áður en við samþykkjum það. Enn er allt of mörgum spurningum þar ósvarað.

Við ræddum mjög mikið hugtakið þjóðareign eða ríkiseign, sem hefur kannski ekki verið rætt svo mikið við þessa umræðu. Ég ætla að vitna til greinargerðar Bjargar Thorarensen, með leyfi forseta:

„Uppi hafa verið tvær stefnur um hvað felst í orðinu þjóðareign. Annars vegar að í því felist fyrst og fremst heimild ríkisins til að setja lög og reglur um eignarhald á náttúruauðlindum, nýtingu og meðferð þeirra. Þessi heimild ríkisins til hvers kyns aðgerða og ráðstafana (fullveldisréttur) er ekki eignarréttur í lagalegum skilningi. Ríkið getur í krafti fullveldisréttar síns sett ýmsar reglur um meðferð og nýtingu auðlinda, hvort sem þær eru í einkaeigu, opinberri eigu eða eigendalausar. Það geta verið reglur sem miða að skynsamlegri meðferð og nýtingu auðlinda og felur m.a. í sér heimildir til að heimta gjald af nýtingu þeirra. Hitt sjónarmiðið hvílir á því að í þjóðareignarhugtakinu sé fólgin sérstök tegund eignarhalds, þannig að ríkinu er samkvæmt lögum fenginn hinn sérstaki eignarréttur á náttúruauðlindum í skjóli þess að enginn annar lögaðili eða einstaklingur hefur getað sannað eignarrétt sinn að þeim. Fyrirmyndin að eignarhaldi af þessum toga er einkum sótt í ákvæði laga um þjóðlendur, nr. 58/1998, en samkvæmt þeim er íslenska ríkið lýst eigandi lands sem ekki er háð einkaeignarrétti og þar með þeirra náttúruauðlinda sem þar finnast. Tillagan í 34. gr. byggist á síðargreinda sjónarmiðinu, en ákvæðið er talsvert nákvæmara en tillögur sem áður hafa komið fram um hvernig mega tryggja að náttúruauðlindir séu í þjóðareign.“

Það verður að segjast eins og er að orðið þjóðareign er miklu fallegra en orðið ríkiseign og séu menn sammála um hvernig skilgreina á það í greinargerð er sá sem hér stendur tilbúinn að fallast á að það geti gengið. Sigurður Líndal taldi hins vegar hugtakið ónothæft, ef ég man rétt, á meðan aðrir sérfræðingar töldu að það væri alveg hægt að hugsa sér það ef það væri bara skilgreint réttilega.

Það er rétt að geta þess að hjá einum lagaprófessornum kom fram að það væri nú kannski ekki tilgangur stjórnarskrárvinnunnar að ná fram fallegasta textanum heldur ætti að ná fram kjarna málsins, þ.e. að hann væri nægilega skýr. Ég held að það sé nauðsynlegt.

Ég setti fyrirvara við ákveðna niðurstöðu í hv. atvinnuveganefnd. Nefndin hafði þann háttinn á að í nefndaráliti komu fram öll sjónarmið sem fram komu fyrir nefndinni. Ég gerði engar athugasemdir við þá niðurstöðu en hins vegar fannst mér skorta verulega á að nefndin tæki á því í ályktunum sínum og umsögn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hvernig fara ætti með það. Ég setti því fyrirvara við álit mitt í hv. atvinnuveganefnd og fór yfir það í nokkru máli. Ég ætla ekki að lesa það hér til að spara tíma.

Það er þó eitt atriði sem ég hef ekki minnst á, ég held að umboðsmaður Alþingis hafi vakið hvað mesta athygli á því atriði en það gerðu einnig Sigurður Tómas Magnússon og fleiri, þ.e. að ákveðin nýmæli fælust í 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins og að þess vegna séu heimildir til takmörkunar mannréttinda að mestu fjarverandi í mannréttindaákvæðum frumvarpsins. Þess í stað sé gert ráð fyrir staðlaðri almennri takmörkunarheimild. Að mínu mati komu í ljós alvarlegir annmarkar á því fyrirkomulagi á fundum nefndarinnar.

Umboðsmaður Alþingis benti á að þarna væru ákveðnir hlutir sem mundu auka heimildir til eignaupptöku eða skerðingar eignarréttar. Hann benti á að orðalag eins og „svo sem samræmist“ væri ekki hægt að nota í lagatexta og að um meðalhóf í 2. mgr. 9. gr., og kjarnaréttindi, ætti sú setning sér enga samsvörun í íslenskum lögum, alla vega vantaði skýringar í greinargerðinni og að ákvæðið væri ekki nógu gott, ekki nógu skýrt gagnvart vernd eða réttindum borgaranna. Það er líka eitt sem fara þarf yfir og var kannski ekki beint á verksviði nefndarinnar en tengdist engu að síður máli okkar.

Ég tek undir þau álit sem fram komu frá Tryggva Gunnarssyni, Arnóri Snæbjörnssyni og Björgu Thorarensen. Þau sögðu að nauðsynlegt væri að fara yfir þetta ákvæði, náttúruauðlindaákvæðið í 34. gr., og endurskoða það. Það er eiginlega alveg sama hvort um er að ræða upphaflega frumvarpstextann, nefndarálit meiri hlutans eða þær breytingartillögur sem fram eru komnar, mér sýnist ekkert af þeim dekka þetta fyllilega og tel að skoða þurfi þann texta og gera hann einfaldari og skýrari þannig að hann taki yfir allar auðlindir.

Í því sambandi má nefna að í breytingartillögunum er búið að fella út orðin „fullt gjald“ og „hóflegur tími“ og eitthvað eitt enn sem ég man ekki hvað var, en margir settu hornin í og fannst það óskiljanlegt. Fyrst við tölum um fullt gjald erum við kannski við brekkubrúnina varðandi það að hefja hér olíuvinnslu. Hér hafa verið sett lög um þá nýtingu og skattlagningu, mig minnir að hún eigi að vera 35 eða 40% af áætluðum hagnaði.

Þeir sérfræðingar sem komu fyrir nefndina sögðu að ef ákvæðið um fullt gjald færi í lög stæðust þau ekki vegna þess að ekki væri um fullt gjald að ræða, þar vantaði upp á. Fulla gjaldið á við um eignarréttarákvæðið sem er í textanum og er mjög óheppilegt þar sem um er að ræða eðlilegt gjald. Þarna hefði kannski mátt nota orðin „sanngjarnt gjald“ vegna þess að það er álitamál sem löggjafinn þarf að setja fram á hverjum tíma og er alveg klárlega mismunandi eftir því við hvaða auðlind er átt. Eins er augljóst að „hóflegur tími“ getur verið mismunandi. Greinargerðin þarf í það minnsta að vera mun skýrari.

Tími minn fer nú að styttast, því miður, en ég vil nota tækifærið til að spyrja formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem er hér í salnum hvort meiri hlutinn hafi ekki tekið mark á þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á að greinargerðin sjálf sé ekki nógu skýr og ekki tæk sem lögskýringargagn. Gagnrýnin kemur frá helstu lögspekingum landsins. Ég benti á það í fyrstu umræðunni strax í haust að mjög mikilvægt væri að á því atriði yrði tekið.

Það kom líka fram í skýrslu sérfræðingahópsins, það vísaði í raun í hugmyndir stjórnlagaráðsins, að mjög mikilvægt væri að vanda sig við lagasetningu og því meira sem málin væru umfangsmeiri. Ég spurði um það í 1. umr. Ég spurði líka nokkra sérfræðinga í nefndinni hvort fyrir lægi hvaða lög þyrfti að setja ef frumvarpið yrði að nýrri stjórnarskrá og hvaða lögum þyrfti að breyta.

Ég spyr enn að því hvort slíkri vinnu hafi verið hraðað. Það er mjög mikilvægt að við höfum skýra sýn á framtíðina. Af því að hv. þm. Lúðvík Geirsson er kominn í salinn þá hlustaði ég á ágæta ræðu hjá honum fyrr í vikunni. Þar fannst mér hann ýja að því að það skipti ekki öllu máli. Hægt væri að setja af stað stjórnarskrá sem væri vissulega bundin ákveðinni óvissu því að þannig væri það alltaf þegar menn breyttu hlutunum, svo tækju menn bara á því seinna meir. Hægt er að hafa þá skoðun, og ég virði hana alveg, að menn taki bara á þeim vanda sem upp kemur þegar óvissan eykst og mál fara að fara fyrir dómstóla og dómstólar skipa framkvæmdarvaldinu nánast að setja ný lög vegna þess að galli sé á gildandi lögum. En ég hefði talið að eðlilegra hefði verið í vönduðu ferli, með skírskotun til athugasemda sérfræðingahópsins, með skírskotun til stjórnlagaráðsins sjálfs, að menn væru búnir að átta sig á því umfangi sem þarna væri. Ég spyr þess vegna hvort slík vinna hafi farið fram.

Í nefndaráliti 2. minni hluta, fulltrúa Framsóknarflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, kemur fram að stefna okkar framsóknarmanna er sú að hægt sé að endurskoða nokkur ákvæði í núgildandi stjórnarskrá á grundvelli þess sem fyrir liggur. Ég ætla aðeins að koma inn á það í lokatexta mínum. Ég ætla að fjalla aðeins um alþingiskaflann þar sem ég sit í forsætisnefnd. Í raun og veru gerir forsætisnefnd breytingar við allar tillögur þar og niðurstaða hópsins var sú að óbreyttur texti gengi einfaldlega ekki. Ég tek undir með Feneyjanefndinni um að við þurfum meiri tíma til að ræða stjórnskipunarþætti og samspil ólíkra þátta í stjórnskipun Íslands.

Ég ætlaði aðeins að koma inn á dómstólakaflann, ég tel að hugsanlega sé hægt að setjast yfir hann og einnig sveitarstjórnarkaflann. Þar eru samt nokkrar athugasemdir. Í 2. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Forseti Íslands, ráðherrar og ríkisstjórn og önnur stjórnvöld fara með framkvæmdarvaldið.“

Kom ekki til greina að setja þarna inn sveitarstjórnir, að segja að sveitarstjórnirnar séu hluti af framkvæmdarvaldinu og að kaflinn um sveitarstjórnir væri nánari útskýring á því? Það mundi þá styðja undir sjálfstæði þess sem lagt er til í þeim kafla. Sumir segja að það standi lítt meir þar en í núgildandi stjórnarskrá í mjög takmarkaðri grein stjórnarskrárinnar um sveitarstjórnir, aðrir benda á að það atriði sé heldur óljóst.

Ég minntist á það áðan að við framsóknarmenn sögðum í byrjun janúar að við værum til í að setjast yfir málið og finna þau ákvæði sem hægt væri að ná sátt um og breyta. Við höfum í því sambandi bent á auðlindaákvæði í stjórnarskrá og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Við höfum einnig rætt ákvæði um fullveldisframsal og hefur fyrrnefnd Björg Thorarensen lagaprófessor ráðlagt utanríkismálanefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í þeim efnum, t.d. varðandi minni háttar og meiri háttar fullveldisframsal.

Annar minni hluti lýkur nefndaráliti sínu á því að segja, með leyfi forseta:

„Annar minni hluti ítrekar þá skoðun sína og vilja að til að ná sátt sé ráðlegt að fulltrúar allra flokka flytji þingsályktunartillögu fyrir þinglok sem tryggi áframhaldandi vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar á komandi kjörtímabili.“

Undir það skrifar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir.

Ég ætla í lok máls míns að fara yfir þær ályktanir sem við framsóknarmenn samþykktum á flokksþingi okkar og hefur þingflokkurinn lengi talað með þeim hætti í umræðunni.

Framsóknarflokkurinn er hlynntur endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins, en gera verður þá kröfu að undirbúningur sé vandaður og að haft sé samráð við ólíka aðila og að breytingar á stjórnarskránni verði ekki undir neinum kringumstæðum þvingaðar í gegn með valdboði stjórnvalda.

Markmið okkar framsóknarmanna er að setja nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskrá um raunverulegan aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, en mér sýnist að við þurfum að gefa okkur meiri tíma í þá kafla og setja auk þess skýrt ákvæði um beint lýðræði varðandi t.d. þjóðaratkvæðagreiðslur.

Þá vil ég benda á að þær athugasemdir hafa komið fram, m.a. í Feneyjaskýrslunni, að við getum ekki horft til Sviss sem hefur gjörólíkt umhverfi. Ég hef líka velt því fyrir mér af hverju menn spá í eitthvert kosningakerfi frá Hollandi. Við horfum yfirleitt til Norðurlandanna. Af hverju horfum við ekki til þeirra í því sambandi? Varðandi jöfnun atkvæða hefur hv. þm. Lúðvík Geirsson bent á að í Noregi sé tekið tillit til landsstærðar við jöfnun atkvæðisréttar. Ég velti fyrir mér af hverju við horfum ekki til slíks. Það er hluti af lengra ferli.

Ég ætla aðeins að klára þær ályktanir sem við gerðum á flokksþingi okkar, framsóknarmenn. Framsóknarflokkurinn vill að vægi atkvæða verði jafnað eins og kostur er en hafnar því alfarið að landið verði gert að einu kjördæmi, frekar þurfi að horfa til þess að fjölga kjördæmum frá því sem nú er. Framsóknarflokkurinn er hlynntur persónukjöri.

Þá erum við komin inn á þær spurningar sem lagðar voru fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Margir tóku þátt í henni og sögðu: Já, ég er hlynntur persónukjöri, en hvernig á það að fara fram? Sumir sögðu nei við þeirri spurningu af því að þeir voru tortryggnir á já-niðurstöðuna en treystu því samt að það yrði gert með skynsamlegum hætti. Sama gilti um þjóðaratkvæðagreiðslurnar og jöfnun atkvæðisréttar. Þjóðkirkjuákvæðið var reyndar nokkuð skýrt.

Við fyrstu spurningunni, hvort tillögur stjórnlagaráðs ættu að vera grundvöllur að nýrri stjórnarskrá, sögðu sumir nei, bæði vegna þess að þeir voru á móti því en líka vegna þess að þeir óttuðust túlkunina á orðinu grundvelli. Aðrir sögðu já, en byggðu túlkun sína á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs, að það mætti breyta þeim. Nú hefur meiri hlutinn breytt hegðun sinni og orðræðu, alla vega athöfnum, með breytingartillögum sínum og tekið þær hér upp. Ég vona að við séum áfram á þeirri vegferð og að við komumst þannig til botns í málinu.

Aðeins fleira varðandi stefnu okkar framsóknarmanna. Við teljum að styrkja þurfi stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu og við viljum að að sjálfstæði Alþingis sé raunverulegt. Þess vegna verði Alþingi að hafa eigið fjárveitingavald í raun og ráða yfir fjármagni til þess að geta leitað eftir sérfræðiaðstoð. Þá erum við kannski að tala um að hafa einhverja anga þjóðhagsstofnunar í þinginu.

Herra forseti. Við þær aðstæður sem uppi eru virðist farsælast að afgreiða þau ákvæði á yfirstandandi þingi sem samkomulag næst um. Vísa ég til þess sem ég hef áður sagt. Framsóknarflokkurinn mun beita sér fyrir því að ljúka endurskoðun stjórnarskrárinnar á komandi næsta kjörtímabili og að við þá vinnu verði höfð hliðsjón af (Forseti hringir.) fyrirliggjandi gögnum. Ég ætla að láta þetta verða lokaorð mín enda er tími minn búinn.