141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega og hófstillta ræðu eins og honum var lagið. Ég vil víkja að ákvæðinu um félagslegu réttindin og nálgun um mannsæmandi vinnuskilyrði, sem hv. þingmaður talaði um.

Auðvitað erum við öll sammála um að við viljum að vinnuskilyrði á Íslandi séu mannsæmandi, um það þarf ekkert að deila. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir kemur fram þegar við skoðum hvað býr í raun og veru þarna að baki. Ef við skoðum greinargerð meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er sagt: Þetta er engin breyting frá því lagafyrirkomulagi sem við erum með í dag.

Ef við hins vegar förum yfir álit ýmissa sérfræðinga, stofnana eins og Tryggingastofnunar og fleiri slíkra aðila, blasir önnur mynd við. Þá vakna spurningar, þá koma upp efasemdir. Er í frumvarpinu verið að leggja til einhvern annan skilning á þessari löggjöf en við höfum haft í dag? Er verið að boða breytingar? (Forseti hringir.) Það sem er svo slæmt við þetta frumvarp er að allan skýrleika vantar. Menn eru að reyna að (Forseti hringir.) redda sér með fallegum orðum í greinargerðinni.