141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:56]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg rétt. Nú sitjum við hv. þingmaður báðir í atvinnuveganefnd og heyrðum þessa umræðu. Hv. þingmaður spurði gjarnan sérfræðingana dýpra út í þetta en gert hafði verið áður og því dýpra sem málið fór því fleiri spurningar vöknuðu. Það er eins og hv. þingmaður nefndi, og reyndar einhverjir sérfræðingar, að það sem liggur í hlutarins eðli, það sem menn setja ekki á blað, vita menn nokk hvað er. En um leið og menn setja eitthvað á blað þá eru einhverjir sem fara að velta fyrir sér: Hvað stendur ekki á blaðinu? Hvað þýðir þetta í raun?

Mig minnir að umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson, hafi meðal annars bent á grein sem ég kom ekki inn á í ræðu minni áðan, en ætla að nota tækifærið fyrst ég mundi eftir henni. Í henni er talað um að allir eigi rétt til að semja um kaup og kjör. Hvað með þá sem eru undir kjararáði? Þeir hafa engan rétt.

Ef menn segjast taka á öllum heimsins málum í (Forseti hringir.) þessu frumvarpi þá vantar ýmislegt og ég tek undir að margt er óskýrt.