141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki miklu við þetta að bæta. Ég tek undir orð hv. þingmanns, enda eigum við hv. þingmaður sæti í atvinnuveganefnd þar sem þetta mál var til ítarlegrar umfjöllunar.

Ég ætla að ítreka það sem ég nefndi í ræðu minni og hafði eftir einum af sérfræðingunum, eða hvort þeir voru tveir. Það að koma orðum í fallegan búning og búa til fallegan texta er ekki það sama, getur jafnvel verið beinlínis hið gagnstæða, og skýr túlkun, skýr lagafyrirmæli, að hægt sé að skýra málið fyrir dómstólum, að mjög skýrt sé hvað standi þarna.

Líka er rétt að menn verða að varast það í stjórnarskrá að setja inn orð og setningar sem skapa falskar væntingar. Það mun bara æra óstöðugan og kalla á dómsmál þar sem væntingarnar eru miklar en niðurstaðan engin.