141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[13:00]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil árétta það sem mér finnst ástæða til að liggi skýrt fyrir, hér hefur farið fram mjög efnisleg og góð umræða í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og í þingnefndum á síðustu mánuðum og missirum um þetta mál. Það skiptir miklu að við erum að fara í þessa efnislegu umræðu í þingsal, 2. umr. Hún hefur verið með miklum ágætum að flestu leyti. Hins vegar er brýnt að hér sé ekki bara gagnrýni á það sem er að finna í texta, við þyrftum að fá einhverjar tillögur af hálfu þeirra sem hafa talað gegn því sem er verið að bera hér fram um breytingar. Það er erfitt að taka umræðuna nema við höfum það uppi á borðum.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson vék að því sem ég nefndi í ræðu fyrr í þessari umræðu, að allar breytingar á stjórnarskrá hljóta að skapa tímabundna óvissu. Við höfum brugðist við mannréttindamálum með því að vera búin að setja lagaramma um ýmsa þá þætti sem er verið að setja núna inn í lagaþáttinn í stjórnarskrá en að öðru leyti eru atriði sem við erum á undan með. Ég spyr hv. þingmann: (Forseti hringir.) Telur hann óeðlilegt að það sé þingsins að sumu leyti að bregðast við (Forseti hringir.) með lagasetningu eftir að búið er að setja þessi ákvæði inn í stjórnarskrá?