141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[13:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Alveg eins og ég kom inn á, bæði held ég í upphafi máls míns og að lokum, höfum við framsóknarmenn talið mikilvægt að endurskoða stjórnarskrána. Ég fór aðeins yfir það hvaða hugmyndir við vorum með hér fyrir fjórum árum og hvaða skoðun ég hef á því ferli í dag. Ég tel reyndar að sú aðferðafræði sem Norðmenn viðhafa, að taka ákveðna kafla og ætla sér að klára verkið á einhverjum ákveðnum kjörtímabilum sé mjög skynsamleg, að menn gefi sér nægjanlegan tíma til annars vegar að ná sem breiðasti samstöðu um þær breytingar, þær séu líklegri til að halda lengur, og endurspegla þá breytta tíma. Það er augljóst að stjórnarskrá gerir það. Þeirra stjórnarskrá er reyndar orðin 200 ára, okkar er ekki enn orðin svo gömul.

Ég held að það sé mikilvægt og ég held að það sé hægt en þá verða menn að vera tilbúnir að setjast yfir þau ákvæði sem þeir vilja klára núna en reyna ekki að halda öllu hér undir og segja: Komið þið bara með tillögur í 113 greinum og við ætlum að klára þær á einni viku. Það vita allir að það er ekki hægt.