141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[13:30]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Við ræðum hér um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, breytingartillögur við þetta frumvarp og nefndarálit bæði meiri og minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Í upphafi máls míns finnst mér rétt að endurtaka það sem kom fram í máli mínu við 1. umr. þessa máls og það er að í þessum sal og úti í samfélaginu geta verið ólíkar áherslur um ýmis mál í þjóðfélaginu, stór og lítil, ólíkar áherslur um hvernig eigi að forgangsraða fjármagni, ólíkar áherslur um það hvaða mál eigi að setja á oddinn í innan- og utanríkismálum. Það er einlæg skoðun þess sem hér stendur að breytingar á stjórnarskrá eigi að vinna í eins víðtækri sátt og mögulegt er. Það á að leita eftir því að ná saman ólíkum sjónarmiðum, það á að leita eftir því að þegar kemur að breytingum á stjórnarskrá sé hún ekki stjórnarskrá Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokks eða Vinstri grænna, hún sé stjórnarskrá okkar allra. Þetta eru grunnreglur samfélagsins og þær grunnreglur sem allt annað byggir síðan á.

Ég verð að segja, frú forseti, að það hefur verið miður að fylgjast með hvernig þetta mál hefur þróast. Það hefur verið slæmt að fylgjast með því hvernig stjórnarskrármálið er komið í pólitískan farveg, komið á það stig að við erum hér á síðustu dögum þingsins með breytingar á stjórnarskrá og í rauninni er allt í háalofti. Það eru skiptar skoðanir, m.a. innan stjórnarflokkanna, milli stjórnar og stjórnarandstöðu, fræðimanna, það er allt í háalofti um það hvernig á að halda þessu máli áfram. Það hefur verið mjög sérstakt að fylgjast með umræðu undanfarinna daga í málinu. Forusta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem hefur þetta mál á sinni könnu, hefur viljað keyra það áfram af miklum þunga. Engu að síður höfum við orðið vör við það bæði í máli manna á milli og eins er það að byrja að komast út í umræðuna að einstaka þingmenn stjórnarliðsins eru einfaldlega búnir að fá nóg af þessu. Þetta kom meðal annars fram hjá hv. þm. Skúla Helgasyni í þinginu og þetta hefur komið fram hjá fleiri aðilum.

Við sáum þetta líka með nýjum formanni Samfylkingarinnar sem gaf það í skyn um helgina að nú ætti að leita víðtækari sátta í málum, að sá tími væri liðinn að menn færu allt á hnefanum. Efnislega er þetta inntak þess sem kom fram í máli hv. þingmanns, að nú ætti að hefja ný vinnubrögð. Þess vegna var skrýtið að fylgjast með því að þegar menn urðu þess varir að kannski væri skynsemin að ná tökum á þessu máli og það væri að myndast grunnur undir því að menn færu að ræða þessi mál efnislega sín á milli og reyna að ná um það víðtækri sátt springur allt aftur í loft upp. Svo virtist sem Hreyfingin hafi gert einhverjar kröfur um að þetta mál færi á dagskrá, ellegar kæmi vantraust á ríkisstjórnina sem stendur mjög veik fyrir o.s.frv.

Allt þetta sem er á milli manna hér, innan stjórnarflokkanna, milli stjórnarflokkanna og síðan stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar eins og Hreyfingarinnar, er eitthvað sem stjórnarskráin á ekki að blandast inn í. Það er sök sér að menn karpi um önnur mál og takist á um þau, en stjórnarskrá lýðveldisins á að vera yfir það hafin. Það er miður að við skulum vera komin á þennan stað. Ég held að staðreyndin sé sú að þeim fari fjölgandi sem átta sig á því að þetta stjórnarskrármál er ekkert að fara í óbreyttri mynd í gegnum þingið á síðustu dögum þess. Þess vegna er svo skrýtið að menn skuli ekki vera sestir niður nú þegar með það að það leiðarljósi að reyna að ná víðtækari sátt um málið. Ég tek undir með þeim sem hafa látið sig þetta mál varða og talað um að það væri slæmt fyrir málið ef menn mundu gera það af pólitískum ástæðum, að menn yrðu ekki tilbúnir að setjast niður og ræða einstaka mál. Það eru einungis örfáir dagar eftir af þessu þingi og jafnvel þó að við ætluðum að taka ákveðna kafla eða einstakar greinar krefjast þær þess að um þær náist víðtæk sátt. Það væri slæmt ef niðurstaðan yrði sú að þetta mál mundi daga uppi vegna þess að ekki sé vilji til að ná um það breiðri samstöðu.

Það kann að vera að menn vilji frekar nota málið í pólitískum tilgangi, það sé hægt að fara inn í kosningar og svo hægt að stilla þessu upp í einhver lið með og á móti breytingum á stjórnarskrá. Það kann að vera að það sé hugmyndafræði einhverra hér inni, en ég ætla á eftir að koma inn á nokkur álitamál sem mér hefði fundist þurfa að ræða betur. Það er síður en svo staðreyndin að ekki sé vilji til að breyta stjórnarskránni. Sá sem hér stendur hefur mikinn vilja til þess og kom meðal annars inn á það í 1. umr. um þetta mál, sérstaklega nokkur atriði sem mér hefði fundist mikilvægt að næðu fram að ganga, breytingar sem snúa að fullveldinu, náttúruauðlindum og beinu lýðræði.

Það hefur líka verið ótrúlegt að fylgjast með vinnubrögðunum í kringum málið. Ég ítreka aftur að það er stjórnarskráin sem við erum að fjalla um, þetta eru ekki bara einhver lög og þetta eru ekki bráðabirgðalög. Þetta eru ekki lög sem eiga að falla úr gildi eftir X langan tíma. Þetta er stjórnarskrá Íslands sem er sett til langs tíma í senn. Þetta er stjórnarskrá lýðveldisins sem allt annað byggir á. Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með allri umræðunni í kringum svokallað Feneyjanefndarálit þar sem forustumenn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vaða upp í ræðustól og ráðast á einstaka fjölmiðla fyrir að fjalla um Feneyjanefndarálitið vegna þess að það var ekki gert á sama hátt og forustumenn nefndarinnar hefðu viljað að fjallað væri um það.

Það er líka ótrúlegt að fylgjast með þegar Feneyjanefndarálitið kemur inn, í fyrsta lagi að menn ætli sér að klára hér stjórnarskrána áður en lokaútgáfa liggur fyrir. Þetta er bara bráðabirgðaálit frá Feneyjanefndinni. Það var líka ótrúlegt að fylgjast með vandræðaganginum í kringum það að þetta bráðabirgðaálit Feneyjanefndarinnar ætti ekki að birtast opinberlega fyrr en það hefði verið þýtt. Engu að síður áttu umræður um málið að halda áfram í þingsal. Það átti að vera lokað, í trúnaði, og talað um að það yrði þangað til í dag og þá ætti þýðingu að vera lokið. Engu að síður stóð til að ræða stjórnarskrármálið hér alla vikuna. Það sýnir hvað staðan er orðin þröng á þessu máli og hversu mikilvægt er að forustumenn flokka setjist niður til þess að ræða með hvaða hætti er hægt að lenda þessu máli þannig að það sé hægt að ná annaðhvort ákveðnum ákvæðum í gegn núna eða halda þessari vinnu áfram á næsta kjörtímabili.

Ákveðnum ákvæðum var vísað til umhverfis- og samgöngunefndar, þeirrar nefndar sem sá sem hér stendur á sæti í. Það eru ákvæði sem meðal annars snúa að náttúruauðlindum, 33.–36. gr., mennningarverðmætum, náttúru, umhverfi, dýravernd o.fl., og síðan 105.–108. gr., um sveitarfélög. Sveitarstjórnarmál heyra einnig undir umhverfis- og samgöngunefnd.

Ég verð að segja, frú forseti, að vinnu umhverfis- og samgöngunefndar var töluvert ábótavant að mati þess sem hér stendur. Þetta fór vel af stað og nefndin fékk til sín gesti til að fjalla meðal annars um þessi ákvæði. Augljóslega voru uppi töluvert skiptar skoðanir og margar viðvaranir heyrðust. Það var fjallað töluvert um að margar þessara greina væru óljósar, réttaráhrifin óljós, greinargerðin sömuleiðis og styddi ekki við einstakar greinar. Það var töluverð gagnrýni frá flestum gestum sem komu fyrir nefndina að undanskildum eiginlega þeim sem áttu sæti í þessu umrædda stjórnlagaráði.

Starf einstakra fagnefnda var mjög mismunandi, til að mynda var starf atvinnuveganefndar sem fjallaði um ákveðin ákvæði miklu ítarlegra og miklu dýpra en annarra. Þar fengu menn heimild til að fá gesti til fundar o.s.frv. Af því að við fjöllum um náttúruauðlindir í þjóðareign verð ég að segja að það var mjög sérstakt að því skyldi hafa verið hafnað í umhverfis- og samgöngunefnd að fá sjónarmið náttúruverndarsamtaka og síðan hagsmunasamtaka eins og samtaka landeigenda, Bændasamtaka Íslands, útgerðarmanna og annarra slíkra.

Þegar málið var síðan rifið út úr nefndinni til að skila inn umsögn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var aðeins búið að fara gróflega yfir málið. Það var á engan hátt búið að fjalla um þetta af þeirri dýpt sem þurfti að gera og hefði þurft að gerast miklu betur.

Sá sem hér stendur skilaði stuttu áliti til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem mig langar að lesa hér, með leyfi frú forseta:

„Hinn 26. nóvember 2012 barst umhverfis- og samgöngunefnd bréf, dags. 23. nóvember 2012, þar sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn nefndarinnar um þau ákvæði frumvarps til stjórnarskipunarlaga sem varða málefnasvið nefndarinnar, þ.e. 33.–36. gr., um menningarverðmæti, náttúru, umhverfi, dýravernd o.fl., og um VII. kafla frumvarpsins, 105.–108. gr., um sveitarfélög. Óskað var eftir því í bréfinu að umsögnin bærist stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eigi síðar en á hádegi 10. desember 2012.

Haldnir voru átta fundir um málið í nefndinni, sá fyrsti 27. nóvember 2012 og sá síðasti 18. janúar 2013. Gestum sem komu á fund nefndarinnar var veittur afar takmarkaður tími til að útlista skoðanir sínar. Þeir gestir sem komu fyrir nefndina gerðu flestir mjög miklar athugasemdir við þær greinar sem nefndin hafði til umfjöllunar. Stjórnarmeirihlutinn hafnaði beiðni þess efnis að fá fleiri gesti til fundar eða vinna málið áfram. Nefndin hefur ekki fjallað nægilega mikið um málið til að hægt sé að vinna ítarlega umsögn.

Annar minni hluti fordæmir þessi vinnubrögð og telur þau algerlega óverjandi.“

Ég ætla að taka hér, frú forseti, eitt mál sem ég hefði viljað að umhverfis- og samgöngunefnd hefði kafað dýpra ofan í. Eins og ég sagði áðan var þar á meðal 34. gr., ein af þeim sem umhverfis- og samgöngunefnd fjallaði um. Hún snýr að náttúruauðlindum og ég held að það sé mjög brýnt að ákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareign fari inn í stjórnarskrá.

Það vakti furðu mína og ég vakti máls á því við 1. umr. málsins að það vekti furðu mína og vildi að nefndir mundu skoða hvort mögulegt væri, jafnvel þó að náttúruauðlindir væru í þjóðareign, að framselja yfirráð náttúruauðlindanna til einhverra annarra en þjóðarinnar sjálfrar, t.d. erlendra stofnana. Þess vegna hefði þurft að skoða tengsl 34. gr., um náttúruauðlindir, við greinina sem snýst um fullveldisframsal, framsal ríkisvalds, 111. gr. Það var ekki vilji til þess og hjá þeim fræðimönnum sem komu fyrir nefndina og voru spurðir hvort 34. gr. tryggði að auðlindir þjóðarinnar yrðu ekki framseldar til erlendra yfirráða, og um tengsl 34. gr. við 111. gr., kom skýrt fram að menn teldu þetta mjög loðið og mjög opið.

Í nefndaráliti meiri hlutans segir um þetta, með leyfi virðulegs forseta:

„Gagnrýni hefur komið fram þess efnis að 34. gr. og skýringar hennar séu óljósar þegar kemur að því hver fari með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt yfir þjóðareignum. Til þess að taka af allan vafa leggur meiri hlutinn til að nýjum málslið verði bætt við 1. mgr. greinarinnar þar sem kveðið verði á um að forsjá, varsla og ráðstöfun þjóðareigna verði hjá handhöfum löggjafar- og framkvæmdarvalds.“

Í 111. gr. sem náttúruauðlindirnar heyra undir er einmitt opnað á framsal löggjafar- og framkvæmdarvalds og þar af leiðandi getum við opnað á framsal á yfirráðum yfir þeim. Ég verð að segja, frú forseti, að ef einhverjar raunverulegar ástæður búa að baki því að menn vilji tryggja að auðlindir séu í þjóðareign hljóta menn líka að vilja tryggja í stjórnarskrá yfirráðin yfir þessum auðlindum, að ekki sé hægt að framselja yfirráðin yfir þeim til erlendra aðila. Fyrirliggjandi drög tryggja þetta ekki.

Þegar þetta kom upp við 1. umr. málsins fluttu einstaka aðilar ræður og ég fór í andsvör við nokkra þeirra til að spyrja út í þetta og hef síðan léð máls á þessu við þá gesti sem hafa komið fyrir umhverfis- og samgöngunefnd. Ég get ekki séð að þetta sé að fullu tryggt í fyrirliggjandi drögum að stjórnarskrá og ekki heldur með fyrirliggjandi breytingartillögum. (ÁI: Hefur þingmaðurinn lesið 72. gr.?) Og ekki heldur með fyrirliggjandi breytingartillögum, frú forseti.

Það hlýtur að vera markmið okkar að við höfum algjörlega óyggjandi yfirráð yfir auðlindum þjóðarinnar. Það er ástæða fyrir því að það er léð máls á þessu hér, m.a. sú að ríkisstjórnin sem er í landinu í dag hefur yfirlýsta stefnu um að sækja um aðild að Evrópusambandinu sem meðal annars felur það í sér að yfirráð yfir auðlindum, sjávarauðlindinni og öðru því um líku, fari til erlendra stofnana. Þá veltir maður því óneitanlega fyrir sér hvort alvara sé á bak við það að menn vilji auðlindir í þjóðareign eða hvort þetta sé fremur einhver sýndarmennska. Af hverju er ekki vilji til þess að setja skýrt inn í stjórnarskrá að yfirráð yfir auðlindum þjóðarinnar verði ekki í höndum erlendra aðila?

Fræðimenn sem komu fyrir nefndina töldu að það yrði að setja inn heimild í stjórnarskrá sem opnaði á að mögulegt væri að setja sérstök lög sem hömluðu erlendu eignarhaldi á meðal annars sjávarútvegsfyrirtækjum og fyrirtækjum í auðlindanýtingu. Þeir fræðimenn sem komu fyrir nefndina töldu að ef ekki væri ákvæði um það sérstaklega í stjórnarskrá að löggjafinn hefði heimild til að setja slíkt mætti í raun túlka það þannig að verið væri að taka það út úr stjórnarskrá sem væri í dag og það gæti takmarkað rétt löggjafans til að setja slík lög.

Af hverju má það ekki vera inni í stjórnarskrá í dag? Af hverju má ekki standa skýrt í stjórnarskránni að löggjafinn hafi heimild til þess arna eða standi einfaldlega í stjórnarskrá að það sé óheimilt? Af hverju má það ekki standa í stjórnarskrá að það sé óheimilt að framselja yfirráð yfir slíkum þáttum til erlendra stofnana? Af hverju má það ekki standa bara skýrum orðum í stjórnarskrá?

Síðan er annað mál sem mig langar að koma hér inn á, mál sem snýr að þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég hef verið fylgjandi því að þjóðin geti í auknum mæli kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um einstök mál. Þegar Evrópusambandsumsóknin var lögð fyrir þingið var ég fylgjandi því að þjóðin fengi að segja skoðun sína á því hvort við ættum að sækja um aðild að Evrópusambandinu og studdi einnig allar breytingartillögur þess efnis að þjóðaratkvæðagreiðslur gætu farið fram um svokallaða Icesave-samninga sem eru þjóðréttarlegir samningar.

Samkvæmt 67. gr. frumvarpsins eru þjóðréttarskuldbindingar undanþegnar þegar þjóðin getur kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Við sáum í Icesave-málinu að þjóðin er fyllilega í stakk búin til þess að greiða atkvæði um það hvort við hefðum átt að taka á okkur þessa Icesave-samninga. Ríkisstjórnin ætlaði að koma í gegn samningum sem hefðu kostað almenning hundruð milljarða króna þvert gegn öllum réttindum Íslands, sem hefur nú verið sýnt fram á með föllnum dómi í Icesave-málinu, og ekkert segir að slíkar aðstæður geti ekki skapast aftur. Þær aðstæður geta komið upp aftur að ríkisstjórn ætli að ráðast í slíkt, gera aðra Icesave-samninga eða aðrar þjóðréttarskuldbindingar. Samkvæmt þessari grein mun meiri hluti þjóðarinnar þá ekki geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um slíka samninga.

Engu að síður er enn inni ákvæði þess efnis að forsetinn geti vísað slíkum málum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá vekur það óneitanlega upp spurningar um það hvort meiri hlutinn á þinginu sé þeirrar skoðunar að við verðum ávallt með þann forseta sem við erum með í dag. (Gripið fram í.) Það er ekki sjálfgefið að hér verði ávallt eins góður forseti og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti lýðveldisins, hefur verið og sé tilbúinn að taka málstað þjóðarinnar og vísa málum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta vekur óneitanlega spurningar um það hvort meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé með þessu að hvetja Ólaf Ragnar Grímsson til að gegna áfram embætti forseta Íslands.

Það er engu að síður miklu eðlilegra að þjóðin sjálf geti kallað eftir slíkum þjóðaratkvæðagreiðslum, jafnvel um þjóðréttarskuldbindingar. Það er fullkomlega eðlilegt að þjóðin geti kallað eftir því hvort hún vilji fá fram þjóðaratkvæðagreiðslur um samninga eins og Icesave. Málskotsréttur forsetans og það að geta sett mál þar í gegn í þjóðaratkvæðagreiðslu er neyðarventill sem var meðal annars gripið til þegar Icesave-samningunum var vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu núna. Það er eðlilegast að þessi neyðarventill sé hjá þjóðinni sjálfri og menn geti ráðist í undirskriftasöfnun eða annað því um líkt, að ekki þurfi að treysta á einn mann eingöngu eða eina konu eða eina persónu eða eitt embætti í þessu.

Ef forsetinn hefði ekki vísað samningunum í þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma hefðu Íslendingar ekki sigrað í þessu dómsmáli. Þá hefði ríkisstjórninni raunverulega tekist ætlunarverk sitt. Mín skoðun er sú að við eigum að hafa þetta ákvæði bæði hjá forsetanum og þjóðinni sjálfri. Við eigum að geta leyft ákveðnum hluta þjóðarinnar að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um þjóðréttarskuldbindingar.

Þessi grein var ekki til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd þannig að sú nefnd sem ég sit í fór ekki ítarlega ofan í þetta mál, en það er annað sem mér finnst umhugsunarvert og hef ekki fengið svör við. Það væri hins vegar fróðlegt og nokkuð sem við ættum að skoða betur. Það má spyrja: Þegar maður er búinn að undanskilja allar þjóðréttarlegar skuldbindingar, erum við þá raunverulega búin að undanskilja öll lög sem koma til vegna EES-samningsins? (Gripið fram í: Já?) Við erum skuldbundin til að taka upp töluvert af löggjöf sem kemur hingað inn vegna EES-samningsins. Erum við þá búin að undanskilja það að þjóðin geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um alla löggjöf sem er til komin vegna EES-samningsins, vegna þess að EES-samningurinn er þjóðréttarsamningur og sú löggjöf er þá til komin vegna þessa þjóðréttarsamnings? Þetta finnst mér umhugsunarefni. Í rauninni erum við þá að takmarka mjög mikið þjóðaratkvæðagreiðsluákvæðið. Við erum að takmarka mjög mikið hvað það er sem þjóðin getur kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um og það finnst mér miður.

Þá veltir maður líka fyrir sér því sama og með auðlindaákvæðið, hvort raunverulegur vilji búi að baki því að þjóðin fái þetta vald þegar það er búið að takmarka það svona mikið. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum ekki að takmarka þetta með þessum hætti. Við eigum að hafa þetta eins og málskotsréttur forsetans er. Þegar kemur að stórum málum sem gætu verið miklar deilur um og eru jafnvel þvert gegn ríkisstjórn eigum við ekki að setja allt okkar traust á það að hér sé forseti sem sé með sama hætti tilbúinn að leyfa þjóðinni að taka ákvörðun um málin. Við eigum að hafa þetta ákvæði í stjórnarskránni.

Ég vil segja aftur, frú forseti, að allt of mörgum spurningum er ósvarað. Bara við þessa stuttu yfirferð í umhverfis- og samgöngunefnd um þessa kafla sést að allt of mörgum spurningum er ósvarað. Allt of mörg óvissuatriði eru uppi. Fræðimenn hafa bent á að fyrir hvert túlkunarlegt atriði í stjórnarskrá, þegar ekki er algjörlega skýrt hvað átt er við, séum við í rauninni að veita dómstólunum það vald að túlka stjórnarskrána. Stjórnarskrá á ekki að vera hægt að túlka í allar mögulegar og ómögulegar áttir.

Þeir fræðimenn sem hafa komið fyrir nefndina, fjölmargir aðilar sem hafa tjáð sig opinberlega um þessi mál, hafa líka sagt að þeir haldi því ekki fram að ekki megi breyta stjórnarskrá. Umræðan virðist vera orðin sú að ef menn vilja hafa hlutina skýrari, vilja ná um þá breiðari sátt og útiloka eða draga úr túlkunarlegum atriðum, séu þeir orðnir mótfallnir því að breyta stjórnarskrá. Eru þeir ágætu þingmenn, m.a. stjórnarmeirihlutans, sem hafa talað upp á síðkastið um að jafnvel sé mikilvægt að ná breiðari sátt um þessi mál þá að tala um að ekki sé vilji til að breyta stjórnarskrá? Ég held ekki. Ég held að það sé fullur vilji til þess að breyta ákvæðum stjórnarskrárinnar og ég minni á það aftur að það er gríðarlega mikilvægt að breið sátt ríki í samfélaginu um það hvernig stjórnarskrá sé breytt og með hvaða hætti.

Ég ætla að lesa niðurstöðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur í 2. minnihlutaáliti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, með leyfi frú forseta:

„Annar minni hluti ítrekar þá skoðun sína og vilja að til að ná sátt sé ráðlegt að fulltrúar allra flokka flytji þingsályktunartillögu fyrir þinglok sem tryggi áframhaldandi vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar á komandi kjörtímabili.“

Eins og ég sagði eru einungis örfáir dagar eftir af þessu þingi. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hefur einnig sagt að tíminn sé að renna út og þetta er haft eftir honum í fjölmiðlum um frumvarp að nýrri stjórnarskrá, með leyfi frú forseta:

„Tíminn er að renna út, segir þingflokksformaður Framsóknar um frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Ríkisstjórnin hafi daginn í dag og á morgun til að ákveða hvort hún vilji semja um eitthvað eða ekkert.“

Þetta kemur fram eftir að álit Feneyjanefndarinnar birtist þannig að það er fullur vilji hjá mönnum til að setjast niður, fara yfir þessi mál og skoða hvort mögulegt sé að ná einhvers konar breiðari samstöðu um það, annaðhvort um einstakar greinar eða framhald þess. Einstakir þingmenn stjórnarmeirihlutans eru farnir að átta sig á þessu, það kom meðal annars fram í umræðu í þinginu í vikunni. Þó virðist enn sem ágreiningur innan stjórnarflokkanna um framhald málsins sé slíkur að ekki sé hægt að ná um það breiðri samstöðu. Ég held að núna sé mikilvægast að við reynum að ná þessari breiðu samstöðu og ég ætla að segja aftur og hafa það sem lokaorð að við getum tekist á um ólík mál í þinginu, við getum tekist á um skipulag, forgangsröðun fjármagns og ýmsa þætti, en stjórnarskrá lýðveldisins er ekki stjórnarskrá einstakra stjórnmálaflokka. Hún er ekki stjórnarskrá meiri hluta eða minni hluta. Hún er stjórnarskrá allrar þjóðarinnar og við eigum að reyna að ná um hana breiðri samstöðu. Það er enn tækifæri til þess og ég kalla eftir því hjá stjórnarmeirihlutanum að menn nýti þetta tækifæri. Það er mjög skammur tími til stefnu, einungis 10–20 þingdagar eftir af þessu kjörtímabili. Tíminn er knappur, við skulum gera það sem nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar sagði að loknum landsfundi Samfylkingarinnar, við skulum vinna málin almennt í meiri sátt en verið hefur.

Þetta mál ætti að vera fyrsta málið þar sem við vinnum í sátt því að ef það er ekki í þessu er það ekki í neinu máli.