141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:07]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Hv. þingmaður verður að sætta sig við að orðum hans sé mótmælt. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd vann sitt verk vel, skilaði ítarlegri umsögn og mörgum tillögum sem hafa verið teknar til greina og liggja hér fyrir fundinum en hv. þingmaður hefur ekki haft fyrir að kynna sér. Vík ég nú aðeins að því.

Þingmaðurinn talaði um að verið væri í einhverjum þykjustuleiðangri varðandi þjóðareign á auðlindum. Öðruvísi mér áður brá. Meðan hv. þingmaður var ekki genginn til liðs við Framsóknarflokkinn talaði hann á annan hátt. Ég ætla að vekja athygli á því við hv. þingmann að í 34. gr. segir svo:

„Auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru í einkaeigu eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.“

Og svo áfram:

„… aldrei má selja þær eða veðsetja.“

Til viðbótar því er skýring:

„Til þjóðareignar skv. 1. mgr. teljast nytjastofnar.“

Af því að hv. þingmaður var að tala um fiskinn og ESB er í þessu ákvæði klárlega gengið frá því að til þjóðareignar teljist nytjastofnar á Íslandsmiðum og það sé sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar sem aldrei megi selja eða veðsetja.

Til áréttingar því er í 72. gr. komið inn svofellt ákvæði:

„Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila.“

Hv. þingmaður, það á líka við um útlendinga. Í 13. gr. hefur, vegna orða hv. þingmanns um útlendinga, verið sett inn ákvæði sem er í núgildandi stjórnarskrá:

„Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hluti í atvinnufyrirtæki hér á landi.“

Þarna undir er þetta því sett allt saman. Það var meðal annars gert vegna ábendinga frá nefndum þingsins, ekki síst frá hv. umhverfis- og samgöngunefnd.

Loks, hv. þingmaður, hvet ég til þess að menn kynni sér 111. gr. og tillögurnar sem þar eru um lög sem heimili framsal tiltekinna þátta ríkisvaldsins, þó ekki á sviði mannréttinda sem náttúruauðlindakaflinn fellur undir, það er óheimilt samkvæmt því ákvæði. Lög sem heimila framsal ríkisvalds skuli njóta hér 2/3 hluta atkvæða ella skuli það í þjóðaratkvæði.

Það stendur því ekki steinn yfir steini í því sem hv. þingmaður sagði enda er hann ólesinn.